Liðnir viðburðir

Bíódagur: Sauðfjárbændur á Ströndum

Sauðfjársetrið bauð Strandamönnum og nærsveitungum í bíó sunnudaginn 8. júlí, en þá var frumsýnd splunkuný hálftíma löng heimildamynd sem ber yfirskriftina Sauðfjárbændur á Ströndum. Myndin var sýnd á stórum sjónvarpsskjá á heila tímanum, kl. 13, 14, 15, 16 og 17. Öll sem áhuga höfðu voru velkomin og enginn aðgangseyrir var tekinn að sýningunum. Það eru systkinin Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og Sigfús Snævar Jónsson nemi í kvikmyndun sem eiga heiðurinn af þessari heimildamynd sem býður fólki að kynnast bændum á Ströndum.

Viðmælendur í myndinni eru bændur á Ströndum, Bjarnheiður Júlía Fossdal og Björn Torfason á Melum í Árneshreppi, Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum á Selströnd, Hannes Hilmarsson á Kolbeinsá í Hrútafirði, Íris Björg Guðbjartsdóttir á Klúku í Miðdal í Tungusveit og Viðar Guðmundsson í Miðhúsum í Kollafirði. Einnig er spjallað við þrjú ungmenni sem ætla sér að verða bændur, Marinó Helga Sigurðsson á Hólmavík, Ólöfu Katrínu Reynisdóttir í Miðdalsgröf og Þóreyju Dögg Ragnarsdóttir á Heydalsá.

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur er handritshöfundur og Sigfús Snævar Jónsson sá um öll tæknimál, upptökur og klippingu. Öll viðtölin og myndefnið var tekið upp í vor, að frátöldu myndefni úr Kirkjubólsrétt haustið 2017 sem Jón Jónsson tók upp.