Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Liðnir viðburðir

Fjölmenni í fornleifarölti í Ólafsdal

Það var vel mætt í Fornleifarölt í Ólafsdal í gönguferð í dag. Gangan var skipulögð í samstarfi Fornleifastofnunar Íslands, Byggðasafns Dalamanna, Sauðfjárseturs á Ströndum, Náttúrubarnaskólans og Ólafsdalsfélagsins. Yfir 70 manns gengu inn í dalinn við Ólafsdal í Gilsfirði undir leiðsögn Birnu Lárusdóttur fornleifafræðings sem stjórnar nú uppgreftri á skála frá fyrstu öldum byggðar þarna. Skálinn fannst á síðasta ári eftir að vísbendingar um hann sáust á loftmynd, en engar ritaðar heimildir greina frá byggðu bóli þarna inni í dalnum. Fleiri rústir eru við skálann sem eftir er að grafa upp.

Fjármagn fékkst hjá Fornminjasjóði og Minjavernd til að hefja fornleifauppgröft og var byrjað fyrr i mánuðinum. Skálinn er um kílómetra framan við húsið í Ólafsdal og var staldrað við á nokkrum áhugaverðum stöðum á leiðinni að skálarústinni. Við uppgröftinn var sagt frá byggingunni, vinnubrögðum við fornleifarannsóknir og nálægar rústir skoðaðar.

Veðurguðirnir sýndu á sér ýmsar ólíkar hliðar á meðan á göngunni stóð, en hópurinn lét það ekkert á sig fá. Fornleifaröltið var jafnframt fyrsta söguröltið, en í sumar verða sögurölt á vegum Byggðasafns Dalamanna og Sauðfjárseturs á Ströndum vikulegur viðburður í samvinnu við ýmsa aðila. Bæði söfnin hafa staðið fyrir gönguferðum síðustu ár og hafa nú tekið höndum saman um söguröltið.

Facebook-síða Ólafsdalsfélagsins

Facebook-síða Fornleifarannsóknarinnar í Ólafsdal