Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Liðnir viðburðir

Forsýning á Draugasögu fyrir þjóðfræðinema

Sú nýbreytni var í leikhúsinu að þessu sinni að haldin var sérstök forsýning á stykkinu síðasta laugardag, dálítið fyrir frumsýningu, en slíkt er alls ekki venja með leikrit. Þar mættu þjóðfræðinemar við HÍ sem voru í haustferð um Strandir. Sú prufusýning heppnaðist ljómandi vel. Þjóðfræðinemarnir eru í nemendafélaginu Þjóðbrók og gerðu víðreist um Strandir, gengu m.a. á fjöll og heilsuðu upp á tröllskessuna Þjóðbrók sem stendur í Þjóðbrókargili upp af Selárdal.

Það er Leikfélag Hólmavíkur sem setur verkið upp í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum. Leikritið Draugasaga er eftir Jón Jónsson þjóðfræðing á Kirkjubóli og var skrifað á síðasta ári. Það byggir á þjóðsögum af svæðinu, sígildri mannvonsku og margvíslegum myrkraverkum fyrri alda. Verkið er ekki við hæfi barna 12 ára og yngri.

Jón Jónsson leikstýrði sjálfur uppsetningunni, en Arnór Jónsson var leikarinn. Hemúllinn samdi hljóðmyndina, Asta Thorisdottir og Ester Sigfúsdóttir sáu um förðun og Jón Valur Jónsson um tæknimál með Jóni leikstjóra.