Liðnir viðburðir

Íslandsmótið í hrútadómum (2019)

Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu við Steingrímsfjörð á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Íslandsmeistaramótið í hrútadómum eða hrútaþukli, eins og gárungarnir á Ströndum segja, var haldið sunnudaginn 18. ágúst og hófst kl. 14:00 á Sauðfjársetrinu. Jafnan er þar fjölmenni, gleðskapur og góð þátttaka í keppninni, bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra hrútaþuklara. Þessi íþróttagrein hefur smám saman náð almennri hylli landans, eftir að hún var fundin upp á Ströndum og Sauðfjársetrið hóf að halda slík mót árið 2003. Góð þátttaka var í keppninni og spreyttu um það bil 60 keppendur sig í þuklinu. Fjölmargir aðrir fylgdust með eða litu við.

Það var frekar kalt í veðri en þurrt, og ljómandi skemmtilegur dagur. Að venju var fín mæting og mikið fjör. Fólk kom að venju víða að af landinu og var gleði og gaman. Dagurinn snýst ekki bara um keppnina í hrútaþuklinu, heldur eiga þeir sem mæta góðar stundir saman, spjalla og sitja að kræsingum á kaffihlaðborði, rifja upp gömul kynni og eignast nýja vini. Við hjá Sauðfjársetrinu þökkum öllum kærlega fyrir komuna og einnig hjartanlega öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn við að gera daginn svona ljómandi skemmtilegan!

Sigurvegari í flokki vanra hrútadómara og þar með Íslandsmeistari í hrútadómum 2019 er Jón Þór Guðmundsson á Galtarholti í Hvalfjarðarsveit.

  1. Jón Þór Guðmundsson á Galtarholti í Hvalfjarðarsveit
  2. Sigmundur Sigurðsson í Lyngási í Kollafirði á Ströndum
  3. Bjarni Hermannsson á Leiðólfsstöðum í Dölum

Sigurvegari í flokki óvanra hrútaþuklara sem ekki nota stigakerfið sem þaulvanir bændur nota varð Dóróthea Sigvaldadóttir á Kárastaðalandi í Borgarnesi.

  1. Dóróthea Sigvaldadóttir á Kárastaðalandi í Borgarnesi
  2. Dagrún Ósk Jónsdóttir náttúrubarn á Kirkjubóli
  3. Þórey Dögg Ragnarsdóttir á Heydalsá og Ólöf Katrín Reynisdóttir í Miðdalsgröf

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að ráðunautur fer fyrir dómnefnd sem metur fjóra íturvaxna og dálítið misjafna hrúta með nútíma tækjum og tólum. Nýjustu tækni og vísindum er þannig beitt til að raða þeim í gæðaröð fyrirfram. Síðan reyna keppendur sig við meta sömu hrúta með hendurnar og hyggjuvitið að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. Þeir vönu gefa hrútunum stig fyrir ýmsa eiginleika, hryggurinn skiptir náttúrulega miklu máli og lærin sem eru tvö á hverjum hrút, þótt þeir séu með fjóra fætur. Bændur gjörþekkja það stigakerfi sem notað er við þetta mat.

Þeir sem óvanir eru eða jafnvel hræddir við hrútana, láta hins vegar duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa síðan rök fyrir máli sínu á keppnisblað sem skilað er inn til dómnefndar. Röksemdirnar mega vera hvernig sem er, bæði til gamans eða í fúlustu alvöru. Oft sér maður að hegðun, atferli og framkoma hrútanna á keppnisstað hefur mest áhrif á keppendur í þessum flokki. Sumir líta líka til fjögurra íhaldsmanna sem heldur hver í sinn hrút og láta útlit þeirra og eiginleika hafa áhrif á matið. Veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum. Sigurvegarinn í flokki vanra fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár, en hann er tileinkaður Brynjólfi Sæmundssyni sem var ráðunautur á Ströndum í um 40 ár.  

Það merkilega er að sumir hafa betri tök á þuklinu en aðrir. Þannig hefur Kristján Albertsson á Melum í Árneshreppi oftast unnið keppnina, alls fjórum sinnum 2006, 2007, 2012 og 2013. Björn Torfason á Melum í Árneshreppi hefur einnig sigrað tvisvar og Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum í Kaldrananeshreppi. Einu sinni hefur kona sigrað í hrútaþuklinu, Hadda Borg Björnsdóttir á Þorpum í Standabyggð. Stundum hefur Íslandsmeistarinn líka verið búsettur utan Stranda, en það líkar Strandamönnum ekki eins vel. Þá keppast heimamenn um vinna titilinn og verðlaunagripinn til baka og halda honum á svæðinu. Í hópi þeirra sem hafa unnið tvisvar er Björn Þormóður Björnsson á Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu. Hann hefur góð tök á þuklinu og er erfiður við að eiga fyrir Strandamenn.

Á hrútadómunum var Sauðfjársetrið einnig með sitt árlega líflambahappadrætti, en þar eru hágæða líflömb frá úrvals bændum á Ströndum í vinninga. Að venju var líka kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð í Kaffi Kind allan liðlangan daginn.

Íslandsmeistarar í hrútaþukli frá upphafi:

2019: Jón Þór Guðmundsson, Galtarholti í Hvalfjarðarsveit
2018: Ragnar Bragason, Heydalsá í Strandabyggð
2017: Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum í Kaldrananeshreppi
2016: Hadda Borg Björnsdóttir, Þorpum í Strandabyggð
2015: Guðmundur Gunnarsson, Kjarlaksvöllum í Saurbæ
2014: Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu
2013: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2012: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2011: Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum í Kaldrananeshreppi
2010: Elvar Stefánsson, Bolungarvík
2009: Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum í Strandabyggð
2008: Björn Torfason, Melum í Árneshreppi
2007: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2006: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2005: Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu
2004: Eiríkur Helgason, Stykkishólmi, og Björn Sigurvaldason, Litlu-Ásgeirsá í Húnaþingi vestra
2003: Björn Torfason, Melum í Árneshreppi