Liðnir viðburðir

Landsmót hagyrðinga á Hólmavík

Undirbúningur fyrir Landsmót hagyrðinga sem haldið verður á Hólmavík laugardaginn 26. ágúst er nú í fullum gangi og að sögn Jóns Jónssonar á Kirkjubóli er nú verið að hnýta síðustu lausu endana í undirbúningnum. “Við erum búin að fá Bjarna Guðleifsson náttúrufræðing á Möðruvöllum til að vera heiðursgest að þessu sinni og erum mjög ánægð með að fá hann til að flytja ávarp því Bjarni er bráðskemmtilegur. Svo erum við að tryggja að nóg verði til af steik og meðlæti, en aðalrétturinn verður að sjálfsögðu holugrillað lambakjöt að hætti Strandamanna.”

Engin bændahátíð verður haldin á vegum Sauðfjárseturs á Ströndum þetta haustið, en að sögn Jóns vonast menn til að í staðinn fjölmenni íbúar á Ströndum og nálægum sveitum á Landsmót hagyrðinga, enda sé um að ræða stórviðburð sem alvöru gleðimenn megi ekki missa af.

“Hér verður mikið um dýrðir og áhugamenn um vísnagerð, kveðskap og söng fá örugglega mikið fyrir sinn snúð. Hér verða margir af fremstu hagyrðingum landsins samankomnir og skemmta sér og öðrum með vísnagerð. Auk þess hefur stór hópur frá Kvæðamannafélaginu Iðunni pantað miða og munu félagar í þeim hópi örugglega taka virkan þátt í skemmtuninni. Svo eru allir sem áhuga hafa velkomnir á hátíðina, hvort sem þeir hyggjast sjálfir yrkja eða flytja kveðskap eða bara hlusta, syngja með og borða veislumatinn. Þegar líður á kvöld og skemmtiatriðum lokið og allir búnir að fá nægan mat verður harmonikkan síðan örugglega dregin fram og þá geta menn fengið sér snúning,” segir Jón.  

Til að tryggja að nóg verði af mat á boðstólum er fólk er beðið að skrá þátttöku sína á hátíðinni í síma 451-3474 eða saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is í síðasta lagi miðvikudaginn 23. ágúst. Landsmótið hefst kl. 20:00 laugardaginn 26. ágúst og verður haldið í Félagsheimilinu á Hólmavík. Miðaverðið er kr. 4.000.-

Daginn eftir, sunnudaginn 27. ágúst, verður síðan árlegt Meistaramót í hrútadómum og hrútaþukli haldið á Sauðfjársetrinu í Sævangi. Segist Jón búast við að margir af gestunum á Landsmótinu muni einnig líta við á þeim mannfagnaði áður en þeir halda heim, taka dálítið á hrútunum, spjalla við bændur og næra sig á kjötsúpu eins og Strandamenn eldi hana eða fá sér af kaffihlaðborðinu. “Það fæðast örugglega einhverjar góðar vísur þá líka,” segir Jón.