Liðnir viðburðir

Hrútadómar í Sævangi 2006 – Kristján á Melum vann

Í dag var árlegt Meistaramót í hrútadómum haldið í Sævangi við Steingrímsfjörð og hófst kl. 14.00. Jón Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins sagði í blaðaviðtali fyrir mótið að allt sé að verða tilbúið fyrir keppnina og er bjartsýnn á góða mætingu: “Hér á Ströndum var fjölmennt og skemmtilegt hagyrðingamót í gær og ég býst við fjölda góðra gesta til viðbótar við heimamenn. Þessi skemmtun hefur mjög verið að festa sig í sessi. Til viðbótar við hrútaþuklið verður veglegt kaffihlaðborð og kjarnmikil kjötsúpa á boðstólum í allan dag í kaffistofunni í Sævangi og kostar 1.000.- Eins er sögusýningin Sauðfé í sögu þjóðar opin, en kaffistofan og sýningin eru opin frá 10:00-18:00.”

Nú er belgingur úr austri við Steingrímsfjörð, en þurrt í veðri: “Við færum okkur kannski í skjól undir húsveggnum í Sævangi með hrútana ef ekki lægir og höfum harmonikkuleik og fjör inni, en annars köllum við nú ekki allt ömmu okkar í þessum efnum,” segir Jón.

“Það er þó þurrt núna og lítur ekkert illa út. Ég man eftir einum Furðuleikunum sem Sauðfjársetrið stóð fyrir í Sævangi fyrir tveimur árum, þar sem var alveg slagveðursrigning og minnst níu vindstig úr norðaustri. Samt tókst mér að fá tuttugu krakka og einn fullorðinn með mér út á völl í fjölskyldufótbolta. Þá spiluðum við hinn æfaforna knattleik Hringlanda sem er hvergi þekktur utan Stranda og ég er viss um að krakkarnir gefa það ekkert eftir í dag að fara líka í bolta og leiki úti.”

Meistaramót í hrútadómum var haldið sunnudaginn 27. ágúst, daginn eftir Landsmót Hagyrðinga sem Sauðfjársetrið hélt á Hólmavík. Afbragðs aðsókn var að hrútadómunum, en tæplega 300 manns mættu. Atburðurinn hefur vakið athygli víða um heim sökum þess hversu óvenjulegur hann er, t.d. fjallaði breskt dagblað um dómana sem hafa greinilega alla burði til að vaxa enn og dafna á næstu árum.

Veður var þokkalegt á meðan mótið fór fram, en keppnin fór fram í skjóli við húsvegginn í Sævangi. Fjöldi keppenda sem margir voru langt að komnir mættu til leiks og hefur þátttaka sjaldan verið betri í flokki þeirra sem eru vanir hrútadómum. Það var Strandamaðurinn Kristján Albertsson á Melum í Árneshreppi sem bar sigur úr býtum á mótinu eftir harða keppni, því alls voru sex sem fundu út réttu röðina á hrútunum miðað við mat yfirdómnefndar undir stjórn Jóns Viðars Jónmundssonar. Í öðru sæti í flokki vanra hrútaþuklara varð annar Strandamaður, Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum í Tungusveit, en þriðji varð Úlfar Sveinsson úr Skagafirði.

Í flokki þeirra óvönu sigraði Sigurður Sigurðarson dýralæknir sem hafði röðina rétta og var einnig með óvenju snjallan rökstuðning í bundnu máli. Dómnefnd taldi að vísu álitamál hvort Sigurður hefði keppt í réttum flokki, en hann fullyrti að hann kynni ekkert í stigakerfinu og væri allsendis óvanur að þukla lifandi hrúta, þó hann hefði vissulega skoðað innyflin í allmörgum slíkum. Auk þess hefði hann ekki snert á hrútunum, bara virt þá fyrir sér. Var fallist á þessar röksemdir. Sigurður brá síðan á leik og flutti vísur sem hann hafði ort á meðan á skemmtuninni stóð við verðlaunaafhendinguna, en hann var á ferð með Kvæðamannafélaginu Iðunni á Ströndum í tengslum við Landsmót hagyrðinga. Í öðru sæti í flokki þeirra óvönu varð Alda Ýr Ingadóttir á Kaldrananesi á Ströndum sem er 11 ára og sú þriðja varð Sólrún Ósk Pálsdóttir sem er 6 ára.

Glæsilegur verðlaunagripur, tileinkaður minningu Brynjólfs Sæmundssonar, sem unnin var úr rekaviði og hvalbeini af handverksmanninum Valgeiri Benediktssyni í Árnesi var veittur sigurvegara í vana flokknum í annað sinn.