Fréttir

Ljósmyndaverkefni Sauðfjársetursins

19. ágúst er alþjóðlegur dagur ljósmyndarinnar. Af því tilefni deilum við hér nokkrum skemmtilegum myndum úr safnkostinum okkar, en þessar myndir fengum við hjá Elínu Skeggjadóttir á síðasta ári. Sauðfjársetrið hefur síðustu misseri staðið fyrir mögnuðu ljósmyndaverkefni sem heitir Menningararfur í myndum, í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa. Um er að ræða fjölþætt verkefni sem snýst um að safna, varðveita, skrá og miðla ljósmyndum sem tengjast Ströndum.

Þetta verkefni hefur gengið vel og er bæði fjölbreytt og skemmtilegt. Myndir sem við söfnum eru skannaðar í hágæðaskanna og góðri upplausn, til að varðveita þær og miðla. Frummyndirnar eru varðveittar í sýrufríum umbúðum og geymdar við góð skilyrði. Skráningin skiptir miklu máli, það er dýrmætt fyrir framtíðina að safnað sé upplýsingum um myndirnar og þær varðveittar. Fróðleikurinn um myndirnar gefur þeim aukið gildi.

Við höfum notað hópinn Gamlar Strandamyndir sem þessir sömu aðilar halda úti á Facebook til að fá fólk til að hjálpa okkur að bera kennsl á myndirnar. Þá er leitað upplýsinga um hver séu á myndunum, hvenær þær voru teknar, hvar og af hverju. Sögum sem fylgja myndum er líka safnað.

Settar hafa verið upp myndasýningar á vegum Sauðfjársetursins og Þjóðfræðistofu, bæði á Hólmavík og í Sævangi, einnig er myndum og frásögnum deilt á vefnum. Myndir og upplýsingar eru settar inn á vefsíðuna Sarpur.is – munir, myndir, minningar, sem er sameiginlegur skráningavefur safna í landinu.

Einnig er nú í gangi verkefni sem heitir Myndir og minningar sem snýst um útgáfu bókar í tilefni af 20 ára afmæli Sauðfjársetursins. Hún er skrifuð með aðstoð Strandafólks sem sendir okkur vel valda ljósmynd sem tengist síðustu öld og pistil sem fylgir henni með dálítið persónulegum vinkli.

Ef þið viljið koma til okkar myndum er um að gera að senda okkur skilaboð hér á síðunni okkar, hringja í s. 693-3474 (Ester) eða senda okkur tölvupóst á saudfjarsetur@saudfjarsetur.is.