Liðnir viðburðir

Meistaramót í hrútadómum 2003

Sunnudaginn 24. ágúst var haldið ansi nýstárlegt meistaramót í hrútadómum í Kirkjubólsrétt við Sævang og hófst keppnin kl. 14. Mótið vakti mikla lukku og var geysivel sótt. Fyrsta starfssumar sýningarinnar í Sævangi heyrði það fremur til undantekninga að fólk úr öðrum landshlutum kæmi á hátíð á vegum Sauðfjársetursins, en það breyttist svo um munaði á hrútadómamótinu.

Framkvæmd keppninnar var með þeim hætti að sérvalin nefnd valinkunnra ráðunauta og hrútaþuklara tók hrútana Frera, Hrímni og Skafl frá Húsavík og Belg frá Miðdalsgröf til ítarlegrar skoðunar fyrirfram, gaf þeim stig og raðaði þeim í gæðaröð. Yfir þessari röð hvíldi síðan mikil leynd.

Síðan var keppt í tveimur flokkum. Annar var fyrir vana bændur og fleiri hrúta­spekú­lanta, en hinn fyrir óvana hrútaþuklara – eina krafan sem gerð var um kunnáttu í þeim flokki var að vita hvað snýr aftur og fram á hrúti. Þeir sem voru vanir hrútadómum þurftu að stiga hrútana fjóra og raða þeim í gæðaröð, en hinir óvönu þurftu ekki að stiga þá heldur bara raða þeim í gæðaröð – hver væri bestur og hver lakastur. Óvönu keppendurnir þurftu hins vegar að rökstyðja dóma sína og vóg snjall rökstuðningur þungt í ákvörðun dómnefndar um lokaröðun keppenda.

Í flokki óvanra voru hvorki fleiri né færri en 15 þáttakendur og athygli vakti að í þrem efstu sætunum voru þrír af yngstu keppendunum. Þá vakti það einnig sérstaka athygli og kátínu að allir sigurvegar­arnir í þessum flokki voru barnabörn Jóns Gústa og Ásdísar í Steinadal.

1. Jón Örn Haraldsson 13 ára
2. Dagrún Ósk Jónsdóttir 9 ára
3. Vilhjálmur Jakob Jónsson 10 ára

Spennan í flokki reyndra hrútaþuklara var mikil vegna þess að fjöldinn allur af sauð­fjár­ræktarsnillingum af öllu Vesturlandi og Vestfjörðum var mættur á svæðið. Vanir þátttakendur voru 13 og þar voru Stranda­menn í minnihluta – en þeir vermdu engu að síður fyrstu þrjú sætin:

1. Björn Torfason á Melum I
2. Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum
3. Kristján Albertsson Melum II

Björn Torfason á Melum var því útnefndur Hrútameistari Sauðfjársetursins 2003 og fékk auk titilsins vegleg verðlaun, en þau voru gefin af Sparisjóði Strandamanna, Búnaðarbankanum á Hólmavík, Viðeyjarstofu og Sauðfjársetrinu. Það var vel við hæfi að verðlaunin voru afhent af  Brynjólfi Sæmundssyni ráðunaut sem hefur síðustu áratugi unnið feikilega öflugt starf í ræktunarstarfi Strandamanna í sauðfjárrækt.

Þess má til gamans geta að eigandi þriggja af þeim hrútum sem dæmdir voru, Matthías Lýðsson í Húsavík, hafði lofað föngulegu hrútlambi í aukaverðlaun, ef einhver keppandi úr flokki þeirra vönu næði að stiga og raða öllum fjórum hrútunum á nákvæmlega sama hátt og dómnefndin. Líklega þarf ekki að hafa áhyggjur af því að nokkrum takist þetta, nokkurn tíma.

Í tilefni keppninnar var einnig haldin vegleg grillveisla í Sævangi þar sem gæðakjöt af sérvöldum húnvetnskum heiðalömbum og vöðvaþykkum Strandalömbum sem kroppað hafa hinn kjarnmikla gróður sem vex við skaflarendur hinna tilkomumiklu Strandafjalla var á boðstólum. Það er ljóst af viðtökunum sem Meistaramótið fékk að það er komið til að vera.