Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

FréttirLiðnir viðburðir

Minningatorg tileinkað Benedikt og Ragnheiði á Kirkjubóli

Sunnudaginn 22. júní kl. 15 verður formlega opnað minningatorg við göngustíginn framan við Sauðfjársetrið í Sævangi. Það er sett upp til að heiðra minningu hjónanna á Kirkjubóli, Benedikt Grímsson og Ragnheiði Lýðsdóttur, en þau gáfu á sínum tíma landið undir félagsheimilið Sævang og íþróttavöllinn þar. Jafnframt voru þau heiðurshjón á sínum tíma óþreytandi við margvísleg félagsstörf og studdu dyggilega við allar framfarir sem tengdust mannlífi og menningu, félagsmálum, æskulýðsstarfi og íþróttaiðkun.

Dagurinn er vandlega valinn, því þann 22. júní verða 130 ár liðin frá fæðingu Ragnheiðar. Á þessu ári eru líka hundrað ár frá því að Benedikt og Ragnheiður gengu í hjónaband og tóku við búskapnum á Kirkjubóli.

Minningatorgið er hugmynd Esterar Sigfúsdóttur, fyrrverandi safnstjóra á Sauðfjársetrinu, og það er safnið sem stendur fyrir þessu framtaki. Verkefnið hefur fengið stuðning frá Sparisjóði Strandamanna, Uppbyggingasjóði Vestfjarða og Sterkum Ströndum. Fá þau bestu þakkir fyrir.

Kaffihlaðborð verður á boðstólum í Sævangi í tilefni dagsins, frá kl. 14-17.