Liðnir viðburðir

Opnun Sauðfjársetursins 2002

Sunnudaginn 23. júní var sýningin Sauðfé í sögu þjóðar formlega opnuð í Sævangi með pompi og pragt. Veðrið lék við gesti opnunarhátíðarinnar sem hófst kl. 14:00 og stóð til tæplega 19:00.

Jón Jónsson framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Félagi áhugamanna um Sauðfjársetur á Ströndum hélt stutta ræðu og Matthías Lýðsson, formaður félagsins, flutti stutt ljóð. Síðan var sýningin opnuð formlega með því að unga fólkið í nágrenninu klippti á ullarband með sauðaklippum. Það gerðu Sigfús Snævar Jónsson á Kirkjubóli og Laufey Heiða Reynisdóttir í Miðdalsgröf.

Almenn ánægja var meðal gesta með sýninguna og ekki síður með kaffihlaðborðið sem svignaði undan öllum kræsingunum sem fram voru bornar og boðnar á vægu verði.

Margir undu sér úti við að skoða gamlar dráttarvélar og farið var í gönguferð með leiðsögn um Orrustutangann sem Sævangur stendur á. Heimalningunum var gefin mjólk að viðstöddum fjölda fólks. Allt fór vel fram og dagurinn var bæði hátíðlegur og skemmtilegur. Talið er að um það bil 300 manns hafi komið á sýninguna á opnunardaginn, þannig að sýningin Sauðfé í sögu þjóðar fer vel af stað.

Á opnunarhátíðinni var haldin samkeppni um nöfn á sex heimalningana sem starfsmenn og gestir sýningarinnar munu ala dyggilega í sumar. Hópurinn samanstendur af sex lömbum; einum svörtum hrút, einum hvítum hrút og fjórum hvítum gimbrum, mismunandi að stærð og gerð.

Frábær þáttaka var í samkeppni um nöfn á hópinn og dómnefnd skipuð valinkunnum heimalningafræðingum átti í mesta basli við að komast að niðurstöðu. Svo fór þó að nafnaröðin Surtur, Hákur, Frekja, Tútta, Snuðra og Tuðra varð fyrir valinu. Sú sem gaf þeim þessi nöfn var Alda Sigurðardóttir á Kaldrananesi.