Fréttir

Sjávarslóð – útisýning & göngustígur

Ný sýning við Sævang hefur verið opnuð og á nýjum sýningarvettvangi. Það var sem sagt ráðist í að setja upp útisýningu við Sævang, við nýjan göngustíg sem kallast Sjávarslóð út í Orrustutangann sem safnið stendur á. Verkefnið tengist einnig Náttúrubarnaskólanum og er á starfssvæði hans við safnið.

Sett voru upp alls 20 myndskreytt upplýsingaskilti á íslensku og ensku um umhverfið í Orrustutanga og Langatanga, einnig er þar fjallað um sauðfjárbúskap, fugla, náttúru, minjar og þjóðsögur á svæðinu. Einnig þrjú útilistaverk sem voru keypt af listamanninum Arngrími Sigurðssyni sem kom sjálfur á staðinn til að setja þau upp. Listaverkin eru Sjávarguðinn Njörður sem er skúlptúr úr hvalbeini, tileinkaður hinum norræna guði sjávarins, Nirði, og þjóðsagnaveran Finngálkn sem hvílir sig á palli við stíginn.

Þriðja verkið er svo minnismerki um Jón gamla Jónsson sem bjó alla ævi við Steingrímsfjörðinn og skrifaði dagbók í meira en þrjá áratugi á 19. öld. Nú er unnið að rannsókn og útgáfu á þessu efni af Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu, mikilvægasta samstarfsaðila Sauðfjársetursins. Minnismerkið er úr hvalbeini og tré og er stólpinn skreyttur með skriftinni í dagbókinni.

Útisýningin og stígurinn voru opnuð við hátíðlega athöfn þann 17. júní, en öll hátíðahöldin á þjóðhátíðardaginn í sveitarfélaginu Strandabyggð fóru þetta árið fram á Sauðfjársetrinu. Síðar um sumarið voru blóm og jurtir við stíginn einnig merkt.