Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Liðnir viðburðir

Sögurölt um Fagradalsfjöru


Fimmtudagskvöldið 9. ágúst kl. 19:30 var rölt um Fagradalsfjöru á Skarðsströnd og í Saurbæ. Þar voru sagðar sögur og lífið í fjörunni skoðað með dyggri aðstoð bænda í dalnum fagra. Í Fagradalsfjöru er margt að skoða, söl, skeljar, æðarfugl, naust, þang, máfa, krækling, sauðfé, kuml, marhálm, skarfa, seli, dys, hrúðurkarla, haferni, orrustuvelli og svo ótalmargt annað. Sannkallaður ævintýraheimur og aldrei að vita hvað finnst næst.

Keyrt er í átt að fjörunni niður afleggjara neðan við bæinn Foss, meðfram Fagradalsá þar til komið er að litlu húsi á barðinu. Gengið verður niður sneiðinga í fjöruna og inn að naustum. Þá er leiðin lögð á haf út eftir því sem fært er og fjaran stækkar. Farið var yfir Fagradalsá á grynningum og gengnar út fjörur og síðan til baka þegar menn höfðu fengið nóg. Þar sem gengið verður á haf út voru gúmmístígvél ráðlagður fótabúnaður og skynsamlegt að grípa göngustafinn með, því það getur orðið hált í fjörunni.

Sögurölt um Dali og Strandir er samvinnuverkefni Byggðasafns Dalamanna, Sauðfjárseturs á Ströndum og Náttúrubarnaskólans og hluti af dagskrá tengdri menningararfsári Evrópu 2018.Árið 2018 er tileinkað menningararfi Evrópu. Markmið Menningararfsár Evrópu er að vekja athygli á og fagna fjölbreyttum menningararfi Evrópu, sem stendur traustum fótum í byggingarlist, fornleifum og fornum ritum en er þó í senn bráðlifandi í dag allt umhverfis okkur. Með því að gera menningararfi hátt undir höfði á árinu verður lögð áherslu á hvernig menningararfurinn byggir upp sterkari samfélög, skapar störf og hagsæld, er mikilvægur fyrir samskipti okkar við aðra hluta heimsins og hvað hægt er að gera til að vernda menningararf okkar.

Minjastofnun Íslands er í forsvari vegna skipulagningar Menningararfsárs Evrópu 2018 hér á landi. Ákveðið hefur verið að hafa „strandmenningu“ sem þema ársins á Íslandi. Undir strandmenningu fellur t.d. handverk, fornleifar, hús og mannvirki, gripir, bátar, sögur og ótal margt fleira.