Liðnir viðburðir

Spurningakeppni (2004)

Spurningakeppni félaga og fyrirtækja á Ströndum
Fyrsta umferðin í Spurningakeppni Sauðfjársetursins 2004, haldin í Félagsheimilinu á Hólmavík. Aðgangseyrir 500 kr, kaffisala á staðnum. Hefst kl. 20:00 stundvíslega.

Fyrsta kvöldið í Spurningakeppni Strandamanna fór fram í félags-heimilinu á Hólmavík síðasta sunnudagskvöld. Fjöldi fólks lagði leið sína í félagsheimilið og greinilegt var að hinn mikli áhugi sem var fyrir keppninni í fyrra hafði síður en svo dvínað, en á bilinu 110-20 manns komu til að berja keppnina augum.

Eftir að Jón Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum, sem heldur keppnina, hafði sagt nokkur orð tók Arnar S. Jónsson spyrill við stjórninni. Fyrsta keppni kvöldsins var á milli Skrifstofu Hólmavíkurhrepps og Lyfsölunnar á Hólmavík. Hún var æsispennandi allan tímann og þegar síðasta spurning keppninnar var lesin voru liðin enn hnífjöfn. Að lokum fór leikar þannig að Skrifstofa Hólmavíkurhrepps vann 25-24 með því að svara síðustu spurningunni rétt.

Keppni nr. 2 var á milli liðs Grunnskólans á Drangsnesi og Hólmadrangs, en Hólmadrangur komst í úrslit í keppninni í fyrra. Eftir hraðaspurningar höfðu Hólmadrangsmenn fimm stiga forystu, en lið Grunnskólans á Drangsnesi vann það forskot upp í fimm fyrstu bjölluspurningunum. Keppnin var síðan hörkuspennandi allt til lokaspurningar, en lið Hólmadrangs komst áfram með því að svara síðustu vísbendingaspurningu keppninnar rétt – Hólmadrangur fékk 25 stig á móti 21 stigi Grunnskólans á Drangsnesi. Að sögn Gunnars Melsteð, skólastjóra á Drangsnesi “munaði einum fjórða úr sekúndu” að Grunnskólinn næði að jafna í síðustu spurningunni. Það er hárrétt hjá honum.

Þegar þarna var komið sögu var ekki vanþörf á því fyrir keppendur sem og áhorfendur að kæla sig og róa sig niður enda óvenju mikil spenna í gangi. Sem betur fer fyrir alla viðstadda var löngu planað að taka stutt hlé. Það var gert og síðan haldið áfram á fullu. 

Þriðja viðureign kvöldsins var á milli Félags eldri borgara og Héraðsbókasafns Strandasýslu, en í bókasafnsliðinu voru tveir úr sigurliðinu árið áður, liði kennara við Hólmavíkurskóla. Fulltrúar Félags eldri borgara létu þá staðreynd ekkert angra sig og velgdu vitringunum verulega undir uggum. Lengi vel var sáralítill munur á liðunum og þegar lestur bjölluspurninga var rétt rúmlega hálfnaður var staðan 18-15 fyrir Héraðsbókasafnið. Þá tók liðið á sig mikla rögg, átti frábæran endasprett og vann skemmtilegt lið eldri borgara með 26 stigum gegn 15.

Síðasta keppnin var síðan á milli Bitrunga og Sparisjóðs Strandamanna. Hvorugt liðanna tók þátt í keppninni í fyrra en það sást engan veginn á frammistöðu þeirra – bæði liðin eru sterklega grunuð um að hafa stundað æfingar í einhvern tíma. Jafnræði var með liðunum allt til loka, en úrslit keppninnar urðu þau að Bitrungar unnu nauman sigur á Sparisjóðsliðinu 20-18. 

Liðin sem komust í átta liða úrslit voru þessi:

Skrifstofa Hólmavíkurhrepps
Hólmadrangur
Héraðsbóksafn Strandasýslu
Bitrungar