Liðnir viðburðir

Sumarhátíð í Sævangi 2002

Sumarhátíð var haldin sunnudaginn 21. júlí. Þar var margt til skemmtunar og fjöldi gesta. Í kaffistofunni var hlaðborð allan liðlangan daginn, en skemmtunin hófst á sláttukeppni. Þar slógu tvö lið með gamla laginu með orfi og ljá, en eitt liðið sló með “nýja” laginu, þ.e.a.s. með garðsláttuvél. Ekki var spurning hvor aðferðin virkaði betur, sláttuvélin var hávær og sló grasið illa og þreytti stjórnanda sinn verulega, en keppendur sem slógu með orfi og ljá gerðu það hljóðlátlega, hratt og vel. Eftir keppnina tóku ýmsir í orfið og sýndu gamla takta meðan aðrir horfðu á og lærðu listina.  

Girðingarstaurakast var næst á dagskránni. Þar var keppnin lítt spennandi eftir að Guðbrandur Sverrison á Bassastöðum setti heimsmet í greininni, kastaði rúma 17 metra. Svanhildur Jónsdóttir kastaði allra kvenna lengst. Síðan var tekið til við keppnina um Besta bóndann 2002. Sú keppni bar þó sennilega ekki nafn með rentu því meirihluti keppenda voru alls ekki bændur.

Keppnin samanstóð af ullarpokahlaupi, nálaþræðingu, mysudrykkju, belgjahoppi (sem er íþrótt sem Strandamenn eru býsna lunknir í), leit í markaskránni og dráttarvéladekkjaveltingi. Skemmst er frá því að segja að enginn öruggur sigurvegari fékkst út úr keppninni, svo flóknar voru reglurnar – Jón Gísli Jónsson var þó býsna nálægt því að vinna sinn riðil og Svanhildur Jónsdóttir sinn. Áhorfendur höfðu gaman af.

Einnig var keppt í grindahlaupi, en þar hlupu menn ákveðna vegalengd með fjárhúsagrindur í hvorri hendi – ágætur undirbúningur undir sauðburðinn. Sverrir Guðbrandsson náði þar býsna góðum tíma í að hlaupa í kringum Sævang með 2 grindur. 

Síðast á dagskrá var sýningargrein, svokallað skítkast sem vakti mikla kátínu meðal áhorfenda sem fengu að taka virkan þátt í kastinu og kasta einni klessu hver. Saklaus bóndasonur, Arnar S. Jónsson frá Steinadal, var skotmarkið og er skemmst frá því að segja að hann slapp alveg við skítinn. Enginn hitti þótt færið væri stutt. Þar sannaðist að skíturinn loðir oft meira við þann sem kastar honum en þann sem skotinu er beint að.