Liðnir viðburðir

Náttúrubarnahátíð 2021

Helgina 9.-11. júlí stóð Náttúrubarnaskólinn í fimmta sinn fyrir Náttúrubarnahátíð á Ströndum, en á þeim tíma voru engar takmarkanir í gildi vegna Covid-19. Hátíðin hefur vaxið og dafnað og var hún veglegri en áður og tókst mjög vel til við skipulagningu, markaðssetningu og framkvæmd hennar. Þökk sé veglegum styrkjum frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða og Sterkum Ströndum var mögulegt að hafa aðgang að hátíðinni ókeypis og erum við mjög þakklát fyrir það. Hátíðin var einnig styrkt af Orkubúi Vestfjarða og Ferðaþjónustunni Kirkjuból þetta árið. Það var einstaklega gaman að geta boðið gestum aðgang að hátíðinni frítt. Hátíðin fær jafnan nokkra umfjöllun í aðdraganda hennar og það er mikilvægt að geta boðið upp á hátíð sem snýr alfarið að fjölskyldum. 

Hátíðin samanstendur af þéttri dagskrá yfir heila helgi þar sem bæði listafólk og skemmtikraftar af svæðinu og á landsvísu koma fram. Við erum ótrúlega heppin hvað mikið af öflugu listafólki er á svæðinu og erum ánægð með að geta boðið þeim þennan vettvang til að miðla verkefnum sínum. Dagskráin var fjölbreytt og erum við sérlega stolt af henni. Kvöldskemmtun með Gunna og Felix, heimsókn frá Benedikt búálfi og Dídí, fræðsla frá Stjörnu-Sævari, töfrasýning og draugasögur voru á meðal atriða. Smiðjur sem leggja áherslu á náttúruna og útivist eru mikilvægur hluti hátíðarinnar og þetta sumarið var boðið upp á jurtalitunarsmiðju með Arfistanum og Furðufuglasmiðju með Þykjó. Þá var hægt að prufa eldsmiðju, fara á hestbak, skjóta af boga, fara í gönguferðir, taka þátt í Núvitundarævintýri, náttúrujóga, fara í fuglaskoðun og ýmislegt fleira. 

Aðsóknin var mjög góð og talið er að um 300-400 manns hafi heimsótt eða kíkt við á hátíðinni, bæði heimafólk og gestir sem voru komnir lengra að. Ferðaþjónustan Kirkjuból er mikilvægur samstarfsaðili hátíðarinnar en hún leyfir gestum að tjalda frítt á túninu og nýta snyrtiaðstöðuna í gistihúsinu. Sérstaða hátíðarinnar er margþætt, hún leggur áherslu á að fjölskyldan skemmti sér saman, stuðlar að útivist og hreysti ungmenna og aukinni náttúruvitund. Gestir og heimafólk voru mjög ánægð með hátíðina. 

Í lok helgarinnar setti Sauðfjársetrið svohljóðandi status á Fésbókina (að slepptum öllum tjákunum):

Náttúrubarnahátíð á Ströndum 2021 lokið! Við erum himinlifandi með helgina, við skemmtum okkur ótrúlega vel, veðrið var ljómandi gott og mætingin frábær. Það er auðvitað hellingur af fólki sem kemur að því að halda svona hátíð! Starfsfólk, stjórn, makar þeirra, fjölskylda og aðrir aðstandendur og velunnarar Sauðfjársetursins eiga miklar þakkir skilið fyrir allt, aðstoðina við skipulagninguna, ráðleggingar, uppstillingar og tilfæringar, að elda dýrindis veitingar, standa vaktina í eldhúsinu, grillinu, afgreiðslunni og á hátíðarsvæðinu um helgina. Við viljum líka þakka öllu listafólkinu og öllum sem voru með atriði, smiðjur og viðburði hjartanlega fyrir, en þau gera hátíðina auðvitað að því sem hún er og erum við mjög ánægð með öll atriðin. Við þökkum styrktaraðilum okkar kærlega fyrir stuðninginn Uppbyggingasjóði Vestfjarða, Sterkum Ströndum, Ferðaþjónustunni Kirkjuból og Orkubúi Vestfjarða. Okkur langar líka að þakka öllum sem komu kærlega fyrir komuna á hátíðina, viðtökurnar og öll fallegu orðin. Það eru bestu gestirnir sem heimsækja Náttúrubarnahátíðina. TAKK. Og sjáumst vonandi á næsta ári!Góðar þakkir fá Arnór Jónsson, Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir, Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, Jón Kristófer Fasth, Jón Jónsson og Steinunn Þorsteinsdóttir sem stóðu með okkur vaktina alla helgina, án ykkar hefði þetta ekki verið hægt.Sérstaklega viljum við þakka yfirnáttúrubarninu Dagrún Ósk Jónsdóttir fyrir frábært skipulag og mjög svo flotta dagskrá. Hlökkum til næstu hátíðar