Liðnir viðburðir

Sögurölt – Naustavík og Fylgdarhamar

Söguröltið 9. júlí varð hluti af Náttúrubarnahátíðinni sem þá var að hefjast. Það var á óvenjulegum tíma eða kl. 17 á föstudegi. Gengið var frá Húsavíkurkleif að tóftunum í Naustavík og síðan fyrir Fylgdarhamar. Áfram var svo gengið eftir fjörunni heim að Sævangi þar sem hátíðin hófst skömmu síðar. Þetta sögurölt varð allsögulegt, því fyrir gönguna höfðu 993 þátttakendur tekið þátt í göngunni. Ákveðið var að sá sem færi sjöundi yfir brúna við Húsavíkurkleifina yrði þúsundasti söguröltarinn og göngugarpurinn og varð það Unnar Ragnarsson á Hólmavík sem lenti í því heiðursæti. Hann á slíkt heiðurssæti vel skilið, því hann hefur tekið þátt í fjölda sögurölta á vegum safnanna.

Jón Jónsson þjóðfræðingur sá um sögumennskuna í göngunni að þessu sinni og Dagrún Ósk Jónsdóttir miðlaði fróðleik um náttúruna.