Hrútadómum Sauðfjársetursins aflýst 2021
Ekkert verður af Íslandsmeistaramóti í hrútadómum á Sauðfjársetrinu í Sævangi þetta árið, frekar en í fyrra. Hrútaþuklið er jafnan mikill fagnaðarfundur þar sem snerting, handabönd og faðmlög skipta miklu máli. Fjöldi gesta fer einnig venjulega vel yfir 200 manna fjöldatakmörkin sem nú eru í gildi. Þetta er áfall fyrir Sauðfjársetrið, enda er hrútaþuklið stærsti viðburður ársins og sá sem skiptir safnið mestu máli. Við trúum því og treystum að kófið og veiran heyri sögunni til í ágúst á næsta ári og hlökkum til að halda næsta mót.Safnið sjálft er opið 10-18 alla daga og öllum sóttvarnareglum fylgt. Verið velkomin í heimsókn.