Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Liðnir viðburðir

Náttúrubarnahátíðin (2018)

Það var mikið um dýrðir í Sauðfjársetrinu í Sævangi við Steingrímsfjörð nú um helgina 13.-15. júlí, þegar haldin var þar Náttúrubarnahátíð á vegum Náttúrubarnaskólans. Fólk á öllum aldri finnur eitthvað við sitt hæfi á þessari óvenjulegu hátíð þar sem allir fá tækifæri til að finna eða rækta sitt innra náttúrubarn, eins og sjá má á dagskránni hér að neðan. Náttúrubarnaskólinn er starfræktur innan vébanda Sauðfjársetursins í Sævangi rétt sunnan við Hólmavík, og þar var hátíðin haldin.

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur hefur starfsheitið yfirnáttúrubarn og sá um skipulagningu. „Undirbúningurinn gekk mjög vel, þetta er allt að smella saman og við erum mjög spennt,“ segir Dagrún Ósk: „Helsta markmið hátíðarinnar er að auka þekkingu á náttúrunni og sýna hvað allir hlutir í kringum okkur eru í raun og veru merkilegir. Einnig hvernig má nýta náttúruna á skapandi og skemmtilegan hátt en jafnframt hvernig á að vernda hana, og svo auðvitað að skemmta sér saman, börn og fullorðnir.“

Hátíðin hófst á föstudegi með gönguferð og síðan setningarathöfn og veðurgaldur. „Mér sýnist ekki veita af að kenna fólki veðurgaldurinn. Hann hefur reynst okkur mjög vel í Náttúrubarnaskólanum og þegar fólk hefur lært hann er ekkert mál að framkvæma hann heima hjá sér þegar á þarf að halda“ segir Dagrún og hlær.

“Alla helgina voru svo á dagskránni fjölbreyttir viðburðir þar sem skemmtun og fróðleik var fléttað saman, til dæmis var Hundur í óskilum með tónleika á laugardagskvöldinu. Góðir gestir úr Latabæ mættu á sunnudeginum og svo var náttúrubarnakviss og vöffluhlaðborð á föstudeginum, auk þess sem hljómsveitin Ylja var með tónleika. Einnig voru smiðjur um fugla, veðrið og útieldun, hægt að fara í fjallgöngur, gönguferðir, á hestbak og í náttúrujóga. Það voru drauga- og tröllasögur í Sagnahúsinu, brúðuleikhúsið Handbendi skemmti, víkingafélagið Víðförull kom í heimsókn og margt fleira.”

Aðgangseyrir að hátíðinni í heild var 3000 kr. en hægt var að kaupa sig inn á staka daga fyrir 1500 kr. Frítt var fyrir hátíðargesti að tjalda á Ferðaþjónustunni Kirkjuból sem er beint á móti Sauðfjársetrinu. Veitingar var hægt að versla hjá Kaffi Kind á Sauðfjársetrinu.

Dagskráin var eftirfarandi:

13. júlí föstudagur
16:00 Auðveld gönguferð um teistuvarpið, lagt af stað frá Sævangi.
17:30 Setning hátíðarinnar. Dagrún Ósk yfirnáttúrubarn setur hátíðina, Strandanornir sýna leikþátt og svo verður framkvæmdur veðurgaldur til að tryggja gott veður alla helgina.
19:00 Skemmtilegir tónleikar með hljómsveitinni Ylju, í Sævangi.
20:00 Náttúrubarnakviss. Skemmtilegur spurningaleikur fyrir fjölskylduna.
21:00 Sauðfjársetur á Ströndum býður upp á vöfflur, djús og kaffi í hléi á náttúrubarnakvissinu. Innifalið í aðgangseyri á hátíðina.
22:00 Fjörusöngur, Kristján Sigurðsson heldur uppi stuðinu.

14. júlí laugardagur
11:00 Náttúrujóga, hugleiðsla og hljóðslökun með Arnbjörgu Kristínu Konráðsdóttur.
12:00 Náttúrufjör: Víkingafélagið Víðförull, náttúrumarkaður, Strandahestar, Smakkaðu náttúruna með Hafdísi Sturlaugsdóttur frá Náttúrustofu Vestfjarða, ljósmyndamaraþon, Strandanornir, opið í tilraunastofunni og plastdýragarðinum og fleira skemmtilegt.
13:30 Út í veður og vind: Skemmtileg smiðja sem hefur það allt, fróðleik, föndur og leik. Listrænn stjórnandi smiðjunnar er Ásta Þórisdóttir.
15:00 Spennandi útieldunarsmiðja þar sem við búum til brauð á priki.
16:00 Brúðuleikhúsið Handbendi sýnir Búkollu.
17:15 Brúðusmiðja þar sem við ætlum að nýta það sem finnum í fjörunni til að búa til brúður.
18:00-20:00 Verður hægt að kaupa grillaðar puslur í Sævangi.
20:00 Snillingarnir í Hundur í óskilum með skemmtilega tónleika.
21:30 Drauga- og tröllasögur í sagnahúsinu.

15. júlí sunnudagur
12:00 Íþróttaálfurinn, Solla stirða og Halla hrekkjusvín koma í heimsókn og koma öllum á hreyfingu.
13:00 Fuglafjör: Íslenskir fuglar í náttúru og minningu. Hjörleifur Hjartarson, höfundur bókarinnar Fuglar stjórnar.
14:00 Útileikir á Sævangsvelli.
15:00 Úrslitaleikur HM – fyrir þá sem vilja verður hægt að horfa á leikinn á tjaldi í Sævangi.
17:00 Fjölskyldufjallganga, Kirkjubólshringurinn genginn. Gangan tekur um það bil 2 klst. og hækkun er 220 m.