Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Liðnir viðburðir

Sögurölt frá Gautsdal í Geiradal

Byggðasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum halda áfram samstarfi sínu frá fyrra ári um sögurölt í sumar. Á fjórða hundraðið mættu í rölt í fyrra, oft í roki og rigningu. Fyrsta sögurölt sumarsins var þó hvorki í Dölum né Ströndum, heldur í Gautsdal í Geiradal miðvikudaginn 19. júní í samstarfi við Karl Kristjánsson og Svanborgu Guðbjörnsdóttir (Kalla og Lóu) bændur á Kambi. Lagt var af stað frá hlaðinu í Gautsdal stundvíslega kl. 19:30.

Skoðaðar voru tóftir af bænhúsi, leifar af gamalli heimarafstöð (túrbínan er varðveitt og til sýnis á Byggðasafni Dalamanna), forn skilarétt Geirdælinga, Réttarfoss í Gautsdalsá og annað sem á vegi hópsins varð.

Dalamenn, Strandamenn, íbúar Reykhólahrepps og aðrir gestir eru velkomnir í röltið. Þar gefst fólki færi á að hreyfa sig hæfilega, hlusta á sögur og ekki síst til að hitta mann og annan úr þessum þremur héruðum.