FréttirLiðnir viðburðir

Námskeið um ritun endurminninga og heimildaleit

Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa býður upp á spennandi námskeið á Hólmavík í nóvember. Það hefur yfirskriftina Ritun endurminninga og heimildir um fjölskyldusögu. Námskeiðið verður haldið í Hnyðju (Þróunarsetrinu á Hólmavík) og öll sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomin. Þjóðfræðingarnir Jón Jónsson og Eiríkur Valdimarsson hjá Þjóðfræðistofu sjá um kennsluna og námskeiðið.

Skipulag námskeiðsins

Fim. 3. nóv. kl. 20-21:30 – Heimildir um fjölskyldusögu & skoðað hvað er aðgengilegt í hinum ýmsu gagnagrunnum á vefnum. Þátttakendur vinna heimaverkefni eftir tímann: Skrifa smá þátt um afa sinn eða ömmu fyrir næsta tíma og nýta heimildir.

Fim. 17. nóv. kl. 20-21:30 – Skrif á endurminningum, ólíkir minningavakar. Þátttakendur vinna heimaverkefni eftir tímann: Skrifa stuttan minningaþátt um tiltekin efni fyrir næsta tíma.

Fim. 24. nóv. kl. 20-21:30 – Ritun endurminninga: Að skrifa skemmtilegan texta. Ótæmandi möguleikar við framsetningu, stíll og orðalag, einfaldleiki og tilþrif við skrif.

Hægt er að mæta á eitt kvöld, tvö eða öll þrjú kvöldin, allt eftir því hvað hentar fólki. Sauðfjársetur á Ströndum býður fólki á námskeiðið þannig að þátttökugjald er ekkert. Skráning er þó nauðsynleg, en um hana sér Ester Sigfúsdóttir forstöðukona Sauðfjársetursins, á Facebook, saudfjarsetur@saudfjarsetur.is eða í s. 693-3474.