Liðnir viðburðir

Baðstofa í beinni – Strandir 1918

Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna býður upp á beina útsendingu úr baðstofunni frá Syðsta-Hvammi. Á kvöldvökunni verður kynnt bókin Strandir 1918: Ferðalag til fortíðar, sem kom út á dögunum. Í bókinni er athygli beint að viðburðum og daglegu lífi á Ströndum á þessum tíma, birtar dagbækur, ferðasögur og greinar eftir heimamenn um mannlíf, náttúru og búskaparbaslið. Fjallað er um líf og störf fólks í Strandasýslu fyrir rúmri öld, á tímum sem standa okkur býsna nærri. Samt er margt við daglegt amstur fólks fyrir 100 árum framandi í samtímanum.

Ritstjóri er Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og hún er einnig greinarhöfundur, eins og Eiríkur Valdimarsson, Hafdís Sturlaugsdóttir og Jón Jónsson. Þá skrifar forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson formála að bókinni.

Með útgáfu bókarinnar Strandir 1918 er rekinn endahnútur á samnefnt verkefni sem hefur staðið yfir á Ströndum frá árinu 2018. Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa eru útgefendur bókarinnar.

Hér er tengill á kynninguna:

https://www.facebook.com/282734725884673/videos/817240798845379