Liðnir viðburðir

Bændahátíð 2002

Bændahátíð var haldin snemma hausts. Þá mættu um 120 manns í Sævang, sem var örlítið lakari aðsókn en árið 2001, þegar undirbúningsnefndin fyrir Sauðfjársetrið endurvakti hátíðina.

Eftir að menn og konur höfðu snætt holusteikt lambakjöt og ort vísur af mikilli kappsemi, talaði ræðumaður kvöldsins og síðan hófust skemmtiatriði sem voru í höndum félagsmanna í Leikfélagi Hólmavíkur.

Það var mikil lyftistöng fyrir Sauðfjársetrið að Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra mætti á svæðið og var ræðumaður kvöldsins. Þótti ræðan snilldargóð og hið sama mátti segja um leikatriðin. Hljómsveitin BG frá Ísafirði lék síðan fyrir dansi og skemmtu menn sér vel fram á nótt.