Fréttir

Bókin Strandir 1918 komin út

Sunnudaginn 6. desember var haldið rafrænt útgáfuhóf fyrir bókina Strandir 1918, í beinni útsendingu á Facebook. Sagt var frá bókinni og höfundar lásu upp. Eingöngu er hægt að kaupa bókina beint frá Sauðfjársetri á Ströndum sem er útgefandi ásamt Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Hún verður ekki til sölu í bókabúðum.

Í bókinni Strandir 1918 birtast fræðigreinar, ferðasögur og dagbókarbrot frá árinu 1918. Ritstjóri er Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og hún er einnig höfundur greinar í bókinni, eins og Eiríkur Valdimarsson, Hafdís Sturlaugsdóttir og Jón Jónsson. Þá skrifar forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson formála að bókinni.

Árið 1918 var merkilegt ár í sögu þjóðarinnar. Ísland fékk fullveldi og ýmsir stórviðburðir settu svip á mannlíf og samfélag. Hér er athygli beint að viðburðum og daglegu lífi á Ströndum á þessum tíma, birtar dagbækur, ferðasögur og fræðigreinar. Fjallað er um líf og störf fólks í Strandasýslu fyrir rúmri öld, á tímum sem standa okkur býsna nærri. Samt er margt við daglegt amstur fólks fyrir 100 árum framandi í samtímanum.