Fréttir

Áramótapistill Sauðfjársetursins

Þá er árið 2020 loksins að líða undir lok. Veiran alræmda hefur sannarlega sett svip sinn á viðburðahald á Sauðfjársetrinu þetta árið, en engu að síður hefur verið nóg um að vera og á köflum mikið að gera í vinnunni. Á söfnum fer fram allskonar innra starf við minjavörsluna sem er að miklu leyti ósýnilegt. Og við höfum dálítið þurft að finna nýjar leiðir til að skemmta okkur saman.

Í janúar tók Sauðfjársetrið þátt í lista- og menningarhátíðinni Vetrarsól og stóð fyrir viðburðinum Bábiljur og bögur í baðstofunni. Þar var sungið, kveðið, sagðar sögur og farið með þulur. Það var skemmtilegt. Þá fóru Ester og Dagrún suður á Mannamót sem er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og störtuðu þar kynningu fyrir það sem átti að verða ferðasumarið mikla.

Í febrúar var eina félagsvist ársins 2020. Við erum vön að hittast oft yfir veturinn á Sauðfjársetrinu og spila saman og er þetta eitt af því sem við höfum saknað hvað mest þetta árið. Það var bollukaffi á bolludaginn, þar sem boðið var upp á hátt í 20 tegundir af bollum, bæði klassískar og líka með framandi og óvenjulegum fyllingum. Bollukaffið var mjög vel sótt. Þá voru Hörmungadagar sem er menningarhátíð á Hólmavík og nágrenni haldnir hátíðlegir í lok febrúar. Sauðfjársetrið tók þátt í þeim og stóð m.a. fyrir viðburðinum Matarmartröð æsku minnar. Þar var boðið upp á veitingar og smakk í takt við titilinn, en viðburðurinn byggði á óformlegri könnun hér á Facebook um minningar fólks um vondan mat sem var að þeirra mati (alltof) oft á borð borinn “í gamla daga”. Það sem fólk nefndi og var svo á boðstólum í Sævangi var meðal annars hræringur grasaystingur, lúðusúpa, steikt lifur og slög vafin utan um þurrkaða ávexti. Einnig var brauðsúpa og sigin fiskur i boði, en fólk hafði verið mjög ósammála um þessa tvo rétti, svipað margir höfðu þá í hávegum, meðan aðrir tengdu þá við hörmungar. Á Hörmungadögum var líka sögustund og sunnudagskaffi í Sævangi þar sem Jón Jónsson þjóðfræðingur sagði frá snjóflóðinu í Goðdal, einkar áhrifaríkur pistill.

Í mars lokuðu söfn um allt Ísland og viðburðir voru settir á ís. Á Sauðfjársetrinu var ákveðið að bregðast við með því að halda heimabingó. Þá gat fólk um allt land keypt bingóspjöld sem send voru til þeirra í gegnum vefinn og svo voru dregnar út tölur á hverjum degi. Allt gekk það vel fyrir sig og þátttaka var góð.

Í apríl ákváðum við að setja heimildamyndina Sauðfjárbændur á Ströndum, sem gerð var fyrir Sauðfjársetrið árið 2018, á vefinn, svo fólk gæti horft á hana heima við. Myndin byggir á viðtölum við bændur á svæðinu. Þá hóf Sauðfjársetrið líka að selja sauðburðarbakkelsi sem kaupendur sóttu eða fengu sent, sem er nýjung og var tilraun til að bregðast við tekjufalli.Í maí undirbjuggum við okkur svo undir að opna fyrir sumarið. Tiltekt, skipulag, bakstur og fleira í þeim dúr einkenndi þennan mánuð. Þá var sett upp ný ljósmyndasýning eftir Yrsu Roca Fannberg með ljósmyndum úr Árneshreppi.

Júní var sérlega viðburðaríkur mánuður á Sauðfjársetrinu. Lokið var við gerð á nýjum göngustíg um Orrustutanga um vorið, sem fékk nafnið Sjávarslóð. Mikil vinna fór í að leggja stíginn og svo voru sett upp þrjú listaverk við hann sem listamaðurinn Arngrímur Sigurðsson á heiðurinn af, það eru sjávarguðinn Njörður, Jón gamli dagbókarritari og þjóðsagnaveran Finngálkn. Við stíginn eru bekkir þar sem hægt er að hvíla sig og skilti sem segja meðal annars frá fuglalífinu, fjörunni og þjóðsögum sem tengjast svæðinu. Stígurinn var opnaður við hátíðlega athöfn þann 17. júní, en öll hátíðahöldin á þjóðhátíðardaginn í sveitarfélaginu fóru þetta árið fram á Sauðfjársetrinu. Þar var fjallkona, leikir, skrúðganga, kaffihlaðborð í takt við breytta tíma og þjóðsagnaskemmtun. Þá var Dagur hinna villtu blóma haldinn hátíðlegur síðar í júní og Hafdís Sturlaugsdóttir hjá Náttúrustofu Vestfjarða leiddi gönguferð þar sem blóm við Sjávarslóðina voru merkt.

Náttúrubarnaskólinn hóf svo auðvitað göngu sína á ný í júní og haldin voru tvö vikunámskeið á vegum hans. Dagrún Ósk Jónsdóttir og Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir sáu um fjörið þar, en þær unnu hjá Sauðfjársetrinu í sumar ásamt Ester Sigfúsdóttir framkvæmastjóra. Hamingjudagar voru að venju haldnir hátíðlegir í lok júní, en smáir i sniðum og hélt Náttúrubarnaskólinn hamingjunámskeið í tilefni þess, auk þess sem Sauðfjársetrið bauð upp á hamingjukökur í stað kaffihlaðborðs þetta árið. Furðuleikar voru ekki haldnir.

Í júlí fór Söguröltið aftur af stað en það er samstarfsverkefni Sauðfjársetursins og Byggðasafns Dalamanna. Alls var farið í fimm fróðlegar göngur og er þetta alltaf jafn skemmtilegt og gott samstarf. Göngurnar voru frábærlega sóttar eins og áður. Þá var Náttúrubarnahátíð á Ströndum haldin 11. júlí. Hátíðin var minni í sniðum en áður vegna veirunnar og til dæmis var ákveðið að hafa hana bara einn dag í stað þriggja eins og vanalega. Engu að síður var þar nóg um að vera, jóga, Sirkus Íslands, tónlistarsmiðja, leikir, fuglaskoðun, töfrasýning, fjörusöngur og draugasögur. Við stefnum á að halda Náttúrubarnahátíð aftur með pompi og prakt sumarið 2021.

Í ágúst stóð til að halda Hrútadómana en samkomutakmarkanir settu þar strik í reikninginn og þurfti því miður að aflýsa þeim þetta árið. Náttúrubarnaskólinn var settur í pásu og sömuleiðis söguröltin. Það var áberandi þetta sumarið eins og hjá öllum að erlendir ferðamenn voru miklu færri en áður. Íslendingar voru þó sérstaklega duglegir að ferðast og var gaman að hitta svo marga sem lögðu leið sína á Strandir, skoðuðu sýninguna og fengu sér kaffi.

September einkennist af smalamennskum og réttum. Sauðfjársetrið seldi smalabakstur og stóð fyrir réttarkaffi. Þá var einnig farið í nokkrar endurbætur og vinnu tengda geymslum og fyrirbyggjandi forvörslu, til dæmis voru settar nýjar UV filmur í gluggana til að vernda safnkostinn.

Í október var farið af stað með annað heimabingó ársins, en það gekk ljómandi vel og var þátttaka mikil. Þá var lögð áhersla á allt haustið að skanna myndir sem safninu hafa borist til varðveislu, svo þær séu til á tölvutæku formi. Allar skannaðar myndir enda svo inni í Sarpnum og verða þannig aðgengilegar öllum.

Nóvember og raunar haustið allt einkenndist af vinnu við bókina Strandir 1918 sem byggir á verkefni sem Sauðfjársetrið hóf árið 2018 með uppsetningu sýningar og málþingum um lífið á Ströndum á þessum tíma. Það er mikil vinna sem fer í bók af þessu tagi en í henni birtast fræðigreinar, ferðasaga, búnaðaryfirlit og brot úr dagbókum. Rannsóknasetur HÍ á Ströndum var útgefandi ásamt Sauðfjársetrinu. Þá tók Sauðfjársetrið þátt í rafrænni hátíð með titilinn Bókavík á Ströndum með kynningu á Strandir 1918, auk þess að standa fyrir Dagbókavík með Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum þar sem Strandamenn voru beðnir að skrifa dagbók í einn dag.

Desember var uppskerumánuður. Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að halda þriðja heimabingóið og var met þátttaka. Bókin Strandir 1918 kom úr prentun í byrjun desember og haldið var rafrænt útgáfuhóf þann 6. desember. Mikið púður var sett í kynningu, Dagrún ritstjóri kynnti bókina á N4 og og hún og Jón Jónsson voru í viðtali hjá Kristínu Einarsdóttur í Mannlega þættinum hjá RÚV. Dagrún og Jón heimsóttu Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum á viðburðinn Baðstofa í beinni og sögðu frá og lásu upp úr bókinni. Þá keyrði bókabíll Sauðfjársetursins um Strandir og seldi bókina. Nú rétt fyrir jól og áramót settu Sauðfjársetrið og Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum af stað kannanir um jóla- og áramótahefðir fólks fyrr og nú. Þá var sjónvarpsþátturinn Jól á Ströndum sem sýndur var á N4 á jóladag tekinn upp á Sauðfjársetrinu, heillangt viðtal við Jón Jónsson þjóðfræðing og aðstoðarmann Sauðfjársetursins númer eitt. Eins var unnið af kappi að uppsetningu nýrra ljósmyndasýninga.

Við þökkum kærlega fyrir árið sem er að líða, heimsóknir í Sævang, þátttökuna í bingó-inu, viðtökurnar við bókinni og skemmtilega viðburði í byrjun árs og sumar. Við hlökkum til næsta árs. Það eru skemmtileg verkefni framundan, við stefnum á að opna nýjar sýningar fyrir næsta sumar og aftur næsta haust, prufa okkur áfram á nýjum miðlum og halda áfram við bókaútgáfu. Við vonumst líka til að hitta ykkur aftur í raunheimum sem allra fyrst, drekka kaffi, spjalla saman og hafa gaman.

Megi gleði og gæfa fylgja ykkur á nýju ári,
Ester Sigfúsdóttir, Sauðfjársetri á Ströndum