Dagur íslenskrar náttúru 2022
Þann 16. september er haldið upp á Dag íslenskrar náttúru og þess vegna er gaman að huga að þeim vinkli í starfsemi safnsins okkar. Við ákváðum af þessu tilefni að færa gamla sýningu sem Sauðfjársetrið stóð fyrir, en búið er að taka niður, inn á vefsíðuna okkar og gera hana þannig aðgengilega að nýju. Hér er tengill inn á sýninguna Náttúrubörn á Ströndum, endilega smellið og skoðið!
Náttúran er ofarlega á baugi í starfseminni. Sauðfjársetrið snýst náttúrulega um sauðkindur, þetta stórmerkilega húsdýr sem lifir villt á fjöllum uppi yfir sumarið. Áherslan í sýningunni hjá okkur er þó meira á bændafólk og búskap en kindurnar sjálfar. Hið pósthúmaníska sjónarhorn að velta fyrir sér hvaða augum kindurnar líta á tilveruna er satt best að segja dálítið útundan hjá okkur í sýningarhönnuninni. Umhverfismál og miðlun um íslenska náttúru er hins vegar í hávegum höfð í starfi Sauðfjársetursins. Sjálfbærni og umhverfisvitund eru hugtök sem eru í hávegum höfð.
Langstærsta náttúruverkefnið hjá okkur er auðvitað Náttúrubarnaskólinn sem var komið á laggirnar árið 2015 og Náttúrubarnahátíðin sem er árleg þriggja daga hátíð fyrir fjölskyldufólk. Náttúrubarnaskólinn er frábært safnfræðsluverkefni þar sem umhverfið og náttúran í kringum Sævang er í raun “safnið” sem unnið er með.
Mörg önnur uppátæki okkar fjalla um náttúru og menningararf. Söguröltin í samvinnu við Byggðasafn Dalamanna snúast beinlínis um að flétta saman menningu og náttúru, enda eru þessi tveir heimar alls engar andstæður heldur þvert á móti samofnir hvor öðrum og ein heild, alla vega í huga okkar aðstandenda Sauðfjársetursins. Á hverju ári er líka farið í blómaskoðun með leiðsögn við Sævang, oftast í tengslum við Dag hinna villtu blóma. Allt er þetta í samstarfi við gott fólk sem hefur fróðleikinn á valdi sínu.
Nú er líka uppi sérsýning um hvítabjarnarkomur á Vestfirði á safninu og loks má nefna að utan við safnið er búið að byggja upp sérsýningu við göngustíginn Sjávarslóð sem er stutt og skemmtileg leið út í Orrustutanga sem safnið stendur á. Þar eru söguskilti, bekkir til að tylla sér og mögnuð listaverk úr náttúrulegum efniviði sem setja svip á náttúruna, en eru um leið í samhljómi við umhverfið og landslagið. Þannig er ein sýning safnsins aðgengileg allan sólarhringinn, allan ársins hring.
Lengri gönguleið um Kirkjubólsfjall hefur verið merkt og liggur frá safninu. Þetta er fimm kílómetra rölt með hækkun um 220 metra, vel viðráðanleg fyrir fólk með börn og tekur þá svona tvo tíma.
Landslagið og umhverfið er þannig hluti af safninu sjálfu. Verið hjartanlega velkomin á Sauðfjársetur á Ströndum, sjáumst í Sævangi.