Liðnir viðburðir

Hrútadómar 2011 – Guðbrandur Sverrisson Íslandsmeistari

Þá er Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum 2011 lokið. Alls tóku fimmtíu manns þátt, þrjátíu í flokki óvanra og tuttugu í flokki vanra hrútadómara. Blíðskaparveður var á Sævangi.

Það var Strandamaðurinn Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum sem fór með sigur af hólmi í flokki vanra þuklara, en Guðbrandur náði öðru sæti árið 2003 og því þriðja árið 2005. Guðbrandur hlaut til varðveislu í eitt ár verðlaunagripinn Horft til himins sem er tileinkaður minningu Brynjólfs Sæmundssonar ráðunautar, auk fjölda annarra verðlauna. Í öðru sæti varð Íslandsmeistarinn 2010, Elvar Stefánsson í Bolungarvík, og þriðja varð Guðlaug Sigurðardóttir bóndi á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi.

Keppendur af Snæfellsnesi gerðu það gott á mótinu því í flokki óvanra fóru mæðgurnar Guðrún Hauksdóttir og Elín Inga Lárusdóttir frá Ögri á Snæfellsnesi með sigur af hólmi. Í öðru sæti varð Linda Jónsdóttir og saman í því þriðja urðu Margrét Vera Mánadóttir á Heiðarbæ í Tungusveit og yngissveinninn Guðmundur Björgvin Þórólfsson á Innri-Ósi við Steingrímsfjörð, en hann er aðeins þriggja ára og naut smávægilegrar aðstoðar móður sinnar, Ragnheiðar Birnu Guðmundsdóttur, við að skrá álit sitt á blaðið. 

Úrslit Íslandsmeistaramótsins voru þessi:

Óvanir hrútaþuklarar (sjá mynd fyrir ofan):
1) Guðrún Hauksdóttir og Elín Inga Lárusdóttir, Ögri við Stykkishólm
2) Linda Jónsdóttir, Árgerði í Skagafirði
3) Guðmundur Björgvin Þórólfsson (3ja ára) á Innri-Ósi og Margrét Vera Mánadóttir í Heiðarbæ

Vanir hrútaþuklarar (sjá mynd fyrir ofan):
1) Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum
2) Elvar Stefánsson, Bolungarvík
3) Guðlaug Sigurðardóttir, Hraunhálsi í Helgafellssveit 

Hrútarnir sem voru dæmdir voru fjórir talsins, þrír í eigu Jóns Stefánssonar á Broddanesi og einn í eigu Matthíasar Lýðssonar í Húsavík. Verðlaun voru afar vegleg, meðal annars fengu sigurvegararnir í vana flokknum 5, 10 og 15 skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingarstöð Vesturlands. Margir aðrir vinningar voru einnig veittir keppendum í þremur efstu sætum í hvorum flokki frá Sauðfjársetrinu, Kaupfélagi Steingrímsfjarðar, Ferðaþjónustunni Kirkjubóli og Ferðaþjónustunni Heydal. Lárus Birgisson ráðunautur fór fyrir dómnefndinni að þessu sinni í fjarveru Jóns Viðars Jónmundssonar, en með honum dæmdi Kristján Óttar Eymundsson ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Húnaþings og Stranda.