Liðnir viðburðir

Íslandsmeistaramótið í hrútadómum (2018)

Sunnudaginn 19. ágúst fór Íslands­meistara­mótið í hrútadómum fram á Sauð­fjársetri  á Ströndum og var mikið um dýrðir. Fjöldi fólks kom þar saman að skoða  hrútana, fylgjast með þuklurunum, skrafa og skeggræða í dásemdar veðurblíðu.

Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Íslandsmeistaramótið í hrútadómum er stærsti viðburður ársins. Ester Sigfúsdóttir framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins segir að hátíðin hafi gengið mjög vel: „Það er alltaf góð þátttaka í hrútadómunum, en keppt er bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra og hræddra hrútaþuklara. Þetta er alltaf mjög skemmtilegt svo við erum bara glöð og ánægð með góða mætingu,“ segir Ester hress.

Um fimmtíu keppendur tóku þátt í mótinu að þessu sinni og áætlar starfsfólk Sauðfjársetursins að nálægt 300 manns hafi heimsótt Sævang yfir daginn og skemmt sér konunglega. Keppt er í tveimur flokkum, annars vegar vanir hrútadómarar sem kunna að stiga hrúta eftir öllum kúnstarinnar reglum og er keppt um Íslandsmeistaratitil í þeim flokki. Í hinum riðlinum keppa óvanir hrútaþuklarar sem eiga að raða þessum sömu fjórum veturgömlu hrútum í gæðaröð og rökstyðja matið. Áður en keppnin hefst er dómnefnd jafnan búin að velja fjóra dálítið misjafna hrúta úr stærri hópi fyrir keppendur að leggja mat á, en að þessu sinni var Sigríður Ólafsdóttir, ráðunautur frá Víðidalstungu, yfirdómari.

Það var Ragnar Bragason á Heydalsá sem fór með sigur af hólmi að þessu sinni og er Íslandsmeistari í hrútaþukli. Í öðru sæti varð Elvar Stefánsson í Bolungarvík og Guðmundur Gunnarsson á Kjarlaksvöllum í Saurbæ í þriðja sæti. Þetta er í fyrsta skipti sem Ragnar sigrar. Í flokki óvanra hrútaþuklara sigraði Elín Þóra Stefánsdóttir í Bolungarvík, í öðru sæti var Marinó Bjarnason á Eysteinseyri í Tálknafirði, í þriðja sæti voru Guðlaug Elíasdóttir og Hrefna Sigurgeirsdóttir í Minni Hlíð, Bolungarvík. Líklegt er að þau keppi öll um Íslandsmeistaratitilinn að ári.

Happadrætti var í gangi og úrvals líflömb frá Ströndum og Skjaldfannardal voru í vinning. Miðinn kostaði 500 kr. Í vinninga voru:

Gæða hrútur frá Ernu og Jóni, Broddanesi
Glæsilegur hrútur frá Barböru og Viðari, Miðhúsum
Fallegur Strandahrútur frá Hafdísi og Matthíasi, Húsavík
Glæsileg gimbur frá Lilju og Guðbrandi, Bassastöðum

Ef þig heillar flekkótt fé,
finnst sá litur bestur sé.
Eina gimbur á ég hér
sem eflaust myndi líka þér.

(Indriði á Skjaldfönn)

Í happdrættinu var það Ásdís Jónsdóttir á Hólmavík sem vann hrút frá Ernu og Jóni Stefáns á Broddanesi á miða 451. Skagfirðingurinn Ari Jóhann Sigurðsson vann hrút frá Barböru og Viðari í Miðhúsum á miða númer 56. Brynja Jónsdóttir frá Þverfelli í Dölum vann hrút frá Hafdísi og Matthíasi í Húsavík á miða númer 77. Íris Guðbjartsdóttir á Klúku í Miðdal vann gimbur frá Lilju og Brandi á Bassastöðum á miða númer 416. Jón Þormar Pálsson á Böðmóðsstöðum í Árnessýslu vann gimbur frá Indriða á Skjaldfönn á miða númer 155.