Liðnir viðburðir

Kvöldvaka: Náttúra og veðurfar á Ströndum 1918

Í tengslum við verkefnið Strandir 1918 var haldin kvöldvaka á Sauðfjársetrinu í Sævangi sunnudaginn 30. september kl. 20:00. Þar var fjallað um náttúru og veðurfar fyrir 100 árum á Ströndum. Frostaveturinn mikli kom við sögu, hafís og heimsóknir hvítabjarna, en einnig var fjallað um búskap, dýralíf og gróðurfar. Stórviðburðir ársins eins og Spánska veikin og Kötlugosið voru einnig í brennidepli.

Fyrirlesarar og titlar á erindum á þessari fyrstu kvöldvöku af þremur í tengslum við verkefnið Strandir 1918 voru:

# Hafdís Sturlaugsdóttir landnýtingarfræðingur: Búskaparhættir og náttúra
# Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur: Veðurfar og vesen – af Frostavetrinum mikla
# Jón Jónsson þjóðfræðingur: Stórviðburðir á landsvísu: Spánska veikin og Kötlugosið

Ókeypis var á atburðinn, en kvöldkaffi með veitingum í anda árins 1918 á boðstólum fyrir kr. 1.500.- fyrir fullorðna.

Samstarfsaðilar Sauðfjárseturs á Ströndum um verkefnið Strandir 1918 eru m.a. Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa, Fjölmóður – fróðskaparfélag á Ströndum, Náttúrustofa Vestfjarða, Grunnskólinn á Hólmavík, Grunnskólinn á Drangsnesi, Leikfélag Hólmavíkur og Náttúrubarnaskólinn.

Styrktaraðilar eru verkefnið Fullveldi Íslands 1918-2018, Safnasjóður og Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og fá þessir aðilar allra bestu þakkir fyrir stuðninginn.