Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Liðnir viðburðir

Vísindakaffi og útgáfufögnuður: Á mörkum mennskunnar (2018)

Í tengslum við Vísindavöku Rannís var haldið Vísindakaffi og útgáfuhóf á Kaffi Kind á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum fimmtudaginn 27. sept. kl. 20:30. Þar kynnti Jón Jónsson þjóðfræðingur nýútkomna bók sína Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi.

Í kynningu á bókinni sem kemur út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar segir: Sögur af sérkennilegu fólki hafa lengi heillað Íslendinga. Þar á meðal eru fjölbreyttar sagnir um fátækt förufólk sem flakkaði um landið fyrr á öldum. Hér er fjallað um þessar frásagnir og stöðu flakkara í samfélaginu fram á 20. öldina. Þeir voru umtalaður hópur, rækilega jaðarsettur og oft líkari þjóðtrúarverum en manneskjum í sögunum. Hörmulegt atlæti Stuttu-Siggu í æsku, skringileg skemmtiatriði Halldórs Hómers, rifin klæði Jóhanns bera og uppreisnarseggurinn Sölvi Helgason koma öll við sögu.

Viðburðurinn var haldinn af Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu í samvinnu við Vísindavöku Rannís og Sauðfjársetrið.