Leikjanámskeið í Náttúrubarnaskólanum
Líkt og undanfarin ár stóð Náttúrubarnaskólinn fyrir tveim vikulöngum leikjanámskeiðum í júní í samstarfi við sveitarfélagið Strandabyggð. Námskeiðin voru vel sótt en í kringum 12 börn voru á hvoru námskeiði. Þrír umsjónarmenn voru með börnunum á námskeiðunum.
Námskeiðin gengu vel, lögð var áhersla á að þátttakendur væru í ólíkum hlutverkum alla daga og brugðu þeir sér meðal annars í hlutverk náttúrufræðinga, fuglafræðinga, vísindamanna, veðurfræðinga, galdramanna og landkönnuða. Var þetta skemmtileg nálgun og bauð upp á margvíslega möguleika. Þá fengum við gestakennara eins og Guðlaugu Guðmundu Ingibjörgu Bergsveinsdóttur sem sagði frá víkingum og Önnu Björgu Þórarinsdóttur framkvæmdastjóra Galdrasýningarinnar sem sagði frá galdramönnum.
Á námskeiðunum er lögð áhersla á leik og skemmtun en einnig að börn læri að þekkja umhverfið og náttúruna og átti sig á hvað hún er fjölbreytt og áhugaverð. Algengt er að börn komi ár eftir ár á námskeið Náttúrubarnaskólans og gleðjumst við yfir því og tökum til marks um að krakkarnir hafi ánægju af námskeiðunum.