Matarmartröð æsku minnar!
Matarmartröð æsku minnar! var uppákoma sem snýst um matarminningar og matargerð og var haldin á Sauðfjársetri á Ströndum í tengslum við hátíðina Hörmungardagar 2020. Matarmartröðin var á dagskrá í hádeginu á hlaupársdag, 29. febrúar.
Þar var boðið upp á viðeigandi veitingar og smakk í takt við titilinn á viðburðinum á meðan birgðir entust. Smakkið var byggt á óformlegri könnun og kraftmikilli umræðu á fésbókinni um minningar fólks um vondan mat sem var að þeirra mati (alltof) oft á borð borinn á æskuárunum. Þar varð fólki t.d. tíðrætt um Hræring sem var oftast nefndur til sögu sem undarlegt óæti, búið til úr tveimur ágætum réttum. Einnig var hægt að smakka grasaysting, lúðusúpu með sveskjum og lárviðarlaufum, steikta lifur og slög vafin utan um þurrkaða ávexti (sem sumum Strandamönnum þykir raunar afbragðs gott sem álegg á brauð).
Til að enginn færi svangur heim úr Sævangi voru einnig tveir gómsætir gæðaréttir til sölu á staðnum, kjötsúpa sem er óumdeild snilld og var ekki tilnefnd af neinum sem slæm matarminning og brauðsúpa sem fékk reyndar furðanlega margar slíkar tilnefningar, en um hana voru líka ótrúlega skiptar skoðanir.