Fréttir

Mikil áhrif Covid á starfsemina

Þetta ár varð að öllu leyti óvenjulegt hjá Sauðfjársetri á Ströndum ses, eins og hjá flestum öðrum sem sinna menningarstarfi og ferðaþjónustu í þjóðfélaginu. Covid 19 hefur haft mikil neikvæð áhrif á starfsemi Sauðfjársetursins á árinu 2020 og sérstaklega á möguleika til öflunar sértekna. Svo virðist sem gestum hafi fækkað um hér um bil helming á árinu 2020 og munar þar mest um viðburði sem voru felldir niður á árinu. Aðsókn yfir sumarið 2020 var að öðru leyti þokkaleg og uppbygging hefur haldið áfram, með aðstoð framlaga frá bakhjörlum safnsins.

Stórir og mikilvægir atburðir eins og árlegir Furðuleikar í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík, Íslandsmeistaramótið í hrútadómum og sviðaveislan, voru felldir niður vegna fjöldatakmarkana og 2ja metra reglu. Náttúrubarnahátíðin var haldin einn dag í júlí í stað þriggja og var mæting þokkaleg. Aðeins eitt kaffihlaðborð var haldið sumarið 2020, á 17. júní hátíðarhöldum, en önnur voru felld niður. Á sunnudeginum um Hamingjudaga var boðið upp kökur og kaffi á hamingjudiskum í stað hlaðborðs og þegar réttað var í Kirkjubólsrétt um haustið var vöfflukaffi í stað hefðbundins hlaðborðs. Hluti náttúrubarnanámskeiða var felldur niður, helmingur af gönguferðum (Söguröltið), Þjóðtrúarkvöldvaka í september og fleiri viðburðir.