Fréttir

Nýtt útgáfuverkefni: Gamla Strandamyndin mín

Við minnum á þetta skemmtilega verkefni, Gamla Strandamyndin mín. Nú á 20 ára afmæli Sauðfjársetursins hyggst safnið ráðast í bókaútgáfu þar sem gamlar ljósmyndir og frásagnir tengdar Ströndum eru í aðalhlutverki. Við vorum búin að kynna þetta afmælisverkefni áður og fengum jákvæð viðbrögð. Nokkur eru búin að skila pistli, bæði fróðlegum og skemmtilegum, sérstaklega norðan úr Árneshreppi. Þar tók fólk vel við sér, en þó vantar dálítið fleira Strandafólk til skrifa pistla til að útkoman verði vegleg bók. Vilt þú kannski vera með?

Hugmyndin er að fá breiðan hóp af fólki sem býr á Ströndum eða tengist svæðinu til að velja sér eina gamla og góða ljósmynd og skrifa pistil sem tengist henni, frá dálítið persónulegu sjónarhorni, frásögn eða endurminningu. Myndin má gjarnan koma úr persónulegu myndasafni, úr albúmi eða ofan af vegg, en gæti líka verið í fórum Sauðfjársetursins eða annarra safna. Pistillinn getur til dæmis verið um myndina sjálfa, fólkið á henni, tímann sem hún er tekin á, viðburð, vinnustað eða félagsskap, staðinn þar sem hún er tekin eða hvaðeina annað sem myndinni tengist. Pistlarnir mega vera á milli 2-5 blaðsíður. Myndirnar sem skrifað er um þurfa að vera eldri en frá árinu 2000.

Nýr skilafrestur á pistil er 17. júní næstkomandi.

Verkstjóri er Ester Sigfúsdóttir forstöðumaður Sauðfjársetursins. Við biðjum þau sem vilja taka þátt í þessu skemmtilega verkefni að hafa samband við Sauðfjársetrið, netf. saudfjarsetur@saudfjarsetur.is, s. 693-3474 (Ester). Í ritnefnd eru þjóðfræðingarnir Eiríkur Valdimarsson, Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson og eru þau tilbúin að hjálpa með pistla ef skrifin eru að vefjast fyrir fólki.