Liðnir viðburðir

Ógnarstundir og örlagastaðir: Þjóðtrúarkvöldvaka í Sævangi

Hin árlega þjóðtrúarkvöldvaka að hausti var haldin í Sævangi við Steingrímsfjörð á Ströndum laugardagskvöldið 14. september og hófst að þessu sinni kl. 21. Flutt voru skemmtileg, spennandi og fróðleg erindi sem tengjast íslenskri þjóðtrú, aftökustöðum, náttúru, örnefnum og sögum. Auk þess var hágæða tónlistaratriði á dagskránni, þar sem Dúllurnar tróðu upp. Kynngimagnað kvöldkaffið var líka á sínum stað.

Á dagskránni voru eftirfarandi erindi (öll flutt á íslensku):

# Jón Jónsson: Dauðadómar, aftökustaðir og dysjar sakamanna.
# Matthias Egeler: Misnotkun, ranglæti og dauði. Sagnir um fátækt fólk á Ströndum.
# Dagrún Ósk Jónsdóttir: Ást, harmur og dauði. Hlutskipti kvenna í íslenskum þjóðsögum.

Á þjóðtrúarkvöldvökum gefst gott tækifæri til að hitta skemmtilegt fólk, hlusta á spennandi sögur og láta þreytuna líða úr sér eftir erfiðar smalamennskur og átök við útilegumenn og tröll fyrr um daginn! Þjóðtrúarkvöldvakan er samstarfsverkefni Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og Sauðfjársetursins. 

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styrkir Þjóðfræðistofu til að halda viðburðinn sem hluta af Vestfirsku þjóðtrúarfléttunni.