Fréttir

Margar góðar minningar um hrútaþuklið á Ströndum

Sauðfjársetur hefur haldið Íslandsmót í hrútaþukli árlega frá árinu 2003, en þá fundu Strandamenn þessa íþróttagrein upp. Nú er keppnishelgin framundan, Íslandsmótið í hrútadómum verður haldið sunnudaginn 20. ágúst og hefst keppni kl. 14. Yfirdómari að þessu sinni verður Jón Viðar Jónmundsson og mætir með dómnefnd með sér. Jón Viðar var sérstakur stuðningsmaður framtaksins þegar lagt var af stað í þennan leiðangur fyrir tveimur áratugum.

Nú eru einmitt liðin 20 ár síðan keppnin var fyrst haldin og því ekki úr vegi að rifja upp fyrri mót, þar má finna margar glaðar minningar. Okkur datt í hug að taka saman yfirlit um fréttir af fyrri mótum, skoða myndir og rifja upp fyrri tíma. Hér er þess vegna dálítið tenglasafn á umfjöllun Sauðfjársetursins um fyrri keppnir og myndir frá þeim sem við höfum miðlað á vefnum. Mótið féll niður vegna fjölda- og fjarlægðatakmarkanna og tveggja kinda Covid-reglunnar í tvö ár.

2003 – Meistarmót í hrútadómum

2004 – Meistaramót í hrútadómum

2005 – Hrútaþuklið – Björn Þormóður vann

2006 – Hrútadómar – Kristján á Melum vann

2007 – Hrútadómar – Kristján á Melum sigraði aftur

2008 – Hrútadómar – Björn á Melum Íslandsmeistari

2009 – Hrútaþuklið – Guðbrandur á Smáhömrum sigraði

2010 – Hrútaþuklið – Elvar Stefánssson Íslandsmeistari

2011 – Hrútadómar – Guðbrandur Sverrisson Íslandsmeistari

2012 – Íslandsmót í hrútaþukli

2013 – Íslandsmeistaramót í hrútadómum – stórhátíð í Sævangi

2014 – Hrútaþuklið – Björn Þormóður Íslandsmeistari

2015 – Hrútadómar – Guðmundur á Kjarlaksvöllum vann!

2016 – Hrútadómar – Hadda Borg í Þorpum Íslandsmeistari

2017 – Íslandsmeistaramót í hrútaþukli

2018 – Íslandsmeistaramótið í hrútadómum

2019 – Íslandsmótið í hrútadómum

2022 – Nýr Íslandsmeistari –  Gunnar Steingrímsson Stóra-Holti í Fljótum

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að ráðunautur fer fyrir dómnefnd sem metur fjóra íturvaxna en dálítið misjafna hrúta með nútíma tækjum og tólum. Nýjustu tækni og vísindum er þannig beitt til að raða þeim í gæðaröð fyrirfram. Við höfum verið svo heppnin að margir ráðunautar hafa lagt okkur lið og verið í dómnefnd. Fyrstu árin sá Jón Viðar Jónmundsson um að leiða dómnefndina og síðan hafa margir aðrir komið við sögu og eiga bestu þakkir skyldar. Án framlags þeirra (og auðvitað hrúta og hrútaeigenda) væri engin keppni.

Síðan reyna keppendur sig við meta sömu hrúta með hendurnar og hyggjuvitið að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. Þarna er semsagt um að ræða keppni milli mannfólks í hrútaþukli, en ekkert endilega valdir bestu hrútarnir, enda eru þeir alls ekkert að keppa sín á milli eins og á hrútasýningum í gamla daga. Vanir þuklarar sem keppa um Íslandsmeistaratitilinn gefa hrútunum stig fyrir ýmsa eiginleika, hryggurinn skiptir náttúrulega miklu máli og lærin vega þungt, þau eru tvö á hverjum hrút þó þeir séu með fjóra fætur. Bændur gjörþekkja stigakerfið sem notað er við þetta mat, það er notað til að velja ásetningshrúta á haustin.

Þeir sem óvanir eru eða jafnvel hræddir við hrútana, láta hins vegar duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa síðan rök fyrir máli sínu á keppnisblað sem skilað er inn til dómnefndar. Röksemdirnar mega vera hvernig sem er, bæði til gamans eða í fúlustu alvöru. Oft sér maður að hegðun, atferli og framkoma hrútanna á keppnisstað hefur mikil áhrif á keppendur í þessum flokki. Sumir líta til íhaldsmannanna sem halda hver í sinn hrút og það kemur fyrir að útlit þeirra og eiginleikar hafa áhrif á matið á hrútunum. Veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum. Sigurvegarinn í flokki vanra er Íslandsmeistari í hrútaþuklinu og fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár, en hann er tileinkaður Brynjólfi Sæmundssyni sem var ráðunautur á Ströndum í um 40 ár.  

Það merkilega er að sumir hafa betri tök á þuklinu en aðrir. Kristján Albertsson á Melum í Árneshreppi hefur oftast unnið keppnina, alls fjórum sinnum 2006, 2007, 2012 og 2013. Björn Torfason á Melum í Árneshreppi hefur einnig sigrað tvisvar og Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum í Kaldrananeshreppi. Einu sinni hefur kona sigrað í hrútaþuklinu, Hadda Borg Björnsdóttir á Þorpum í Standabyggð.

Stundum hefur Íslandsmeistarinn líka verið búsettur utan Stranda, en það líkar Strandamönnum ekki eins vel. Þá keppast heimamenn um vinna titilinn og verðlaunagripinn til baka og halda honum á svæðinu. Í hópi þeirra sem hafa unnið tvisvar er Björn Þormóður Björnsson á Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu. Hann hefur góð tök á þuklinu og er erfiður við að eiga fyrir Strandamenn.

Íslandsmeistarar í hrútaþukli frá upphafi:

2022: Gunnar Steingrímsson, Stóra-Holti í Fljótum
2019: Jón Þór Guðmundsson, Galtarholti í Hvalfjarðarsveit
2018: Ragnar Bragason, Heydalsá í Strandabyggð
2017: Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum í Kaldrananeshreppi
2016: Hadda Borg Björnsdóttir, Þorpum í Strandabyggð
2015: Guðmundur Gunnarsson, Kjarlaksvöllum í Saurbæ
2014: Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu
2013: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2012: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2011: Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum í Kaldrananeshreppi
2010: Elvar Stefánsson, Bolungarvík
2009: Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum í Strandabyggð
2008: Björn Torfason, Melum í Árneshreppi
2007: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2006: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2005: Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu
2004: Eiríkur Helgason, Stykkishólmi, og Björn Sigurvaldason, Litlu-Ásgeirsá í Húnaþingi vestra
2003: Björn Torfason, Melum í Árneshreppi