Liðnir viðburðir

Send í sveit: Súrt, saltað og heimabakað (2019)

Senn koma út tvær bækur um siðinn að senda börn í sveit. Önnur nefnist Send í sveit: Þetta var í þjóðarsálinni. Sú er safn fræðigreina um siðinn frá upphafi til okkar daga þar sem mannfræðingar, þjóðfræðingar, lýðheilsufræðingar, safnafræðingar, bókmenntafræðingar og félagsráðgjafar fjalla um sínar rannsóknir á siðnum með fjölbreyttum hætti. Hin bókin nefnist Send í sveit: Súrt, saltað og heimabakað. Í henni birtast stuttar umfjallanir um ólík viðfangsefni tengd siðnum þar sem stuðst er við myndir, frásagnir einstaklinga, bókmenntatexta og fjölmiðlaumfjallanir.

Í báðum bókunum eru Strandir sérstaklega til umfjöllunar, þá einkum upplifanir bænda, húsfreyja og barna sem ólust upp á svæðinu af því að opna heimili sín fyrir börnum annarra fjórðung úr ári. Þessa kvöldstund fluttu valdir höfundar erindi byggð á sínum rannsóknum á efninu, kynntu bækurnar og tóku þátt í umræðum með gestum og gangandi. Erindi kvöldsins:

Eiríkur Valdimarsson: Sveitasamviska
Jónína Einarsdóttir: Send í sveit í þágu þjóðar
Geir Gunnlaugsson: Hvernig var í sveitinni?
Esther Ösp Valdimarsdóttir: Hvað segja bændur þá?

Jón Jónsson frá Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum stýrði umræðum og Sauðfjársetrið sá um kvöldkaffi að sveitasið. Verkefnið Send í sveit og viðburðurinn voru styrkt af Strandabyggð (styrkur til aðstandenda bókanna). Sauðfjársetrið hefur tekið þátt í verkefninu og sýningin Sumardvöl í sveit var hluti af því. Aðgangur var ókeypis.