Sirkusinn Allra veðra von!
Sauðfjársetrið fékk sirkushópinn Hringleik í heimsókn með sýninguna ALLRA VEÐRA VON í júlí. Um er að ræða ljómandi fallega og listræna sýningu fyrir alla fjölskylduna og fór sýningin fram úti. Veðrið var gott á meðan á sýningunni í Sævangi stóð og fjölmargir áhorfendur skemmtu sér stórvel. Í kynningu á viðburðinum sagði:
Spennandi akróbatík, áhætta, grín og glens, ljóðrænar myndir og magnaðir loftfimleikar flétta saman sögur af mönnum og veðri.
Í vikunni áður hélt sirkusinn námskeið fyrir 8-16 ára á Hólmavík og var viðburðurinn allur unninn í samvinnu við Arnkötlu – lista og menningarfélag sem fékk styrk fyrir sirkusnámskeiðinu frá Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda.