Liðnir viðburðir

Spurningakeppni Strandamanna – fyrsta umferð (2003)

Fyrsta umferðin í Spurningakeppni Strandamanna 2003, keppni milli félaga og fyrirtækja, haldin í Sævangi. Átta lið keppa um hvaða tvö þeirra komast á úrslitakvöldið. Hefst kl. 20:00. Aðgangseyrir kr. 500 fyrir eldri en 16 ára, kaffisala á staðnum.

Sauðfjársetur á Ströndum stóð fyrir keppninni, en Arnar S. Jónsson frá Steinadal átti hugmyndina og heiðurinn af undirbúningi keppninnar. Þá var hann dæmdur til að semja spurningar, ásamt því að vera spyrill og dómari. Það var mikil stemmning fyrir keppninni á Ströndum. Skráning fór fram úr björtustu vonum, en 16 lið skráðu sig og ekki þurfti að nöldra í einum einasta manni um að vera með. Það er ekki til að minnka skemmtilegheitin að keppendur eru á öllum aldri, meðal annars tóku nemendur í Grunnskólanum á Hólmavík þátt og Félag eldri borgara á Hólmavík ætlar líka að spreyta sig.

Liðin sem mættust í fyrstu umferð voru:

Heilsugæslan II – Nemendur Hólmavíkurskóla
Félag eldri borgara – Hólmadrangur I
Kennarar Hólmavíkurskóla – Fiskvinnslan Drangur
Grundarás – Strandagaldur

Keppt var með útsláttarfyrirkomulagi. Sigurlið fyrstu umferðar kepptu innbyrðis um hvaða tvö lið komast á úrslitakvöldið. Að sjálfsögðu fær vinningsliðið vegleg verðlaun og farandbikar að auki. Keppnin sjálf þótti takast með eindæmum vel. Aðsókn var góð og í raun fór hún fram úr björtustu vonum, en tæplega 140 manns komu í félagsheimilið Sævang þetta kvöld. Stemmningin var gríðarlega góð, það var klappað, hlegið og borðað, en Sauðfjársetrið stóð einnig fyrir kaffisölu. 

Það voru lið kennara við Hólmavíkurskóla og Grundaráss sem komust áfram á úrslitakvöldið. Keppnirnar voru mjög skemmtilegar og sumar þrælspennandi – þrjár þeirra unnust með eins stigs mun. Það er ljóst af öllu að aðstandendur keppninnar hafa aldeilis hitt naglann á höfuðið og komast líklega ekki hjá því að halda nýja keppni að ári. Best að auglýsa strax eftir spyril og dómara fyrir næsta ár.