Vestfjarðahringur á Ferguson
Æskuvinirnir Karl G. Friðriksson og Grétar Gústafsson komu við á Sauðfjársetrinu í dag á ferð sinni um Vestfirði. Þeir ætla að keyra Vestfjarðahringinn á Ferguson dráttarvélum og safna um leið styrkjum fyrir Vináttu sem er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti. Þetta er ekki fyrsta ferðin þeirra því árið 2015 óku þeir félagar hringinn í kringum landið á þjóðvegi 1 til að vekja athygli á þessu sama málefni.
Karl og Grétar lögðu af stað frá Staðarskála á sínum Ferguson vélum í morgun, þann 13. júlí, og ef allt gengu að óskum ljúka þeir ferðinni þann 20. júlí á Hvanneyri. Þeir keyra um það bil 100 km. á fjórum tímum. Óskum við þeim félögum góðrar ferðar og vonum innilega að bæði söfnun og ferðalagið gangi vel.
Til að styrkja verkefnið um 1900 krónur er hægt að senda sms-skilaboðin í símanúmerið 1900 og skrifa Barnaheill í skilaboðin. Líka er hægt að styrkja verkefnið í gegnum síðuna barnaheill.is