Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Fréttir

Vinningshafar í leikum á Vetrarsól

Nú er ljóst hver hafa verið dregin út eða unnið í ýmsum leikjum á meðan hæglætishátíðin Vetrarsól á Ströndum var í gangi.

Í fyrsta lagi var spurningakeppni á föstudagskvöldið, svokallað Fjarsvar, sem Galdrasýning á Ströndum stóð fyrir. Sigurvegari í þeirri keppni var með dulnefnið Hemulen og á bak við það leyndist Arnar Snæberg Jónsson sem tók þátt frá Hafnarfirði. Hann fær að launum vinning frá Galdrasýningunni og Arnkötlu. Jafnframt fær hann að halda næsta spurningakviss sem er nú aldeilis ekki ónýtur aukavinningur.

Í öðru lagi er búið að draga út einn úr þeim hópi sem skilaði inn réttu svari í rúnaratleiknum. Það var hún Birna Dröfn sem varð sú heppna í þessum skemmtilega leik sem Náttúrubarnaskólinn og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa stóðu fyrir. Hún fær vinning frá Náttúrubarnaskólanum og Arnkötlu af þessu tilefni.

Í þriðja lagi var lofað einum þátttökuverðlaunum í tengslum við ljósmyndaleik sem Augnablikið – Ljósmyndaklúbbur Arnkötlu stóð fyrir. Þar er einnig búið að draga út vinningshafa og var sá heppni Eiríkur Valdimarsson og fær hann að launum bókina Strandir 1918 (sem hann skrifaði einmitt að nokkru leyti sjálfur). Þann vinning gefa Sauðfjársetur á Ströndum og Arnkatla – lista- og menningarfélag sem stóð einmitt fyrir Vetrarsólarhátíðinni með góðri hjálp fjölmargra aðila.

Við óskum vinningshöfum hjartanlega til hamingju með vinningana sína og þökkum öllum sem voru með í leikjunum kærlega fyrir þátttökuna.