Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Liðnir viðburðir

Hrútaþuklið (2010) – Elvar Stefánsson Íslandsmeistari

Þá er Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum 2010 lokið. Það er skemmst frá því að segja að mótið í ár var best sótti viðburðurinn í sögu Sauðfjárseturs á Ströndum. Yfir 400 manns mættu  í Sævang og hvorki fleiri né færri en 71 tóku þátt í hrútadómunum – 43 í flokki óvanra og 28 í flokki vanra dómara. Aldrei hafa fleiri tekið þátt og óhætt er að fullyrða að mótið sé mjög að eflast, vaxa og dafna.

Sigurvegari Íslandsmeistaramóts í hrútadómum árið 2010 var Elvar Stefánsson frá Bolungarvík, en hann hefur keppt í þuklinu svo til frá upphafi og náði meðal annars öðru sæti árið 2005. Í óvana flokknum sigraði Brynja Bjarnfjörð Magnúsdóttir ásamt Emmu Ýr Kristjönudóttur (3ja ára). Mótið var best sótti atburður Sauðfjársetursins í átta ára atburðasögu þess, en yfir 400 manns mættu í Sævang yfir daginn og yfir 2ö0 manns mættu síðan á ball með Geirmundi Valtýssyni um kvöldið.

Keppt var sirkustjaldi Strandakúnstar að þessu sinni, en rigning var og fremur kalt framan af þennan ágæta hrútadag. Hrútarnir Spaði, Grafar, Hvellur og Fleygur voru mættir á svæðið og skoðaðir í bak og fyrir. Allir hrútarnir voru í eigu Jóns Stefánssonar á Broddanesi utan þess síðastnefnda sem er í eigu Matthíasar Lýðssonar í Húsavík. Verðlaun voru afar vegleg, meðal annars fengu sigurvegararnir í vana flokknum 5, 10 og 15 skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingarstöð Vesturlands. Margir aðrir vinningar voru einnig veittir keppendum í þremur efstu sætum í hvorum flokki frá Bændasamtökum Íslands, Sauðfjársetrinu, Strandagaldri, Malarhorni á Drangsnesi, Hólmadrangi, Strandalambi í Húsavík og Strandakúnst á Hólmavík.

Úrslitin urðu þau að Elvar Stefánsson í Bolungarvík stóð uppi sem sigurvegari og Íslandsmeistari í hrútaþukli að þessu sinni.

  1. Elvar Stefánsson í Bolungarvík
  2. Björn Torfason á Melum í Árnshreppi
  3. Eiríkur Helgason í Stykkishólmi

Í flokki óvanra hrútaþuklara:

  1. Brynja Bjarnfjörð Magnúsdóttir ásamt Emmu Ýr Kristjönudóttur
  2. ) Guðný Hrönn Þorsteinsdóttir, Reykjavík (11 ára)
  3. Birna Ingimarsdóttir á Kaldrananesi

Um kvöldið var svo þuklaraball á Hólmavík, stórdansleikur með Geirmundi Valtýssyni. Hann hélt uppi stuðinu fram á rauða ágústnóttina á vel sóttum dansleik í félagsheimilinu á Hólmavík. Ballið hófst k. 23:00 og stendur yfir til 03:00.