Liðnir viðburðir

Hrútaþuklið 2009 – Guðbrandur á Smáhömrum sigraði

Afar fjölmennt var á Landsmóti í hrútadómum sem fram fóru í sjöunda skipti í frábæru veðri á Sauðfjársetrinu í Sævangi laugardaginn 22. ágúst. Tæplega 50 manns tóku þátt í keppninni sjálfri. Strandamaðurinn Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum stóð uppi sem sigurvegari í flokki vanra þuklara, en hann hefur oftsinnis verið í öðru eða þriðja sæti á mótinu undanfarin ár. Í öðru sæti var Halldór Olgeirsson á Bjarnastöðum í Öxarfirði og í því þriðja varð Gunnar Steingrímsson í Stórholti í Fljótum. Í flokki óvanra fór Barbara Guðbjartsdóttir í Miðhúsum í Kollafirði með sigur af hólmi.

Úrslitin í keppninni voru sem hér segir:

Í flokki vanra hrútaþuklara:
1) Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum í Tungusveit
2) Halldór Olgeirsson, Bjarnastöðum í Öxarfirði
3) Gunnar Steingrímsson, Stórholti í Fljótum

Í flokki óvanra hrútaþuklara:
1) Barbara Ósk Guðbjartsdóttir, Miðhúsum í Kollafirði
2) Steinar Baldursson, Odda í Bjarnarfirði
3) Alda Ýr Ingadóttir, Kaldrananesi í Bjarnarfirði

Hrútarnir sem voru dæmdir voru þeir Sólon, Freri, Hvinur og Gutti, en allir eru þeir í eigu Jóns Stefánssonar á Broddanesi utan þess síðastnefnda sem Reynir Björnsson í Miðdalsgröf á. Það voru 24 sem kepptu í óvana flokknum en 22 tóku þátt í flokki hinna vönu. Verðlaun voru afar vegleg, en m.a. fengu sigurvegararnir í vana flokknum 5, 10 og 15 skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingarstöð Vesturlands. Margir aðrir vinningar voru einnig fyrir keppendur eins og bók Bjarna Guðmundssonar “Og svo kom Ferguson”, vinnugallar og veggspjöld frá Bændasamtökum Íslands, úttektargjafabréf, höfuðföt og minjagripir frá Sauðfjársetrinu.

Guðbrandur Björnsson hlaut einnig til varðveislu í eitt ár verðlaunagripinn Horft til himins sem er tileinkaður minningu Brynjólfs Sæmundssonar ráðunautar.

Strandahestar mættu á svæðið og var teymt undir börnum, leiktæki voru frá vinnuskólanum í Strandabyggð og Nonni Villa fór á rúntinn með börnin í kindavagni. Auðvitað var líka farið í leiki á íþróttavellinum. Sirkus- og sölutjald Strandakúnstar var uppi, þar var sölumarkaður, andlitsmálun og af og til var gripið í harmonikkuna. Að venju var dýrindis kaffihlaðborð á boðstólum á Sauðfjársetrinu allan liðlangan daginn!

Stefnt hafði verið að því að halda bændahátíð og þuklaraball á Hólmavík um kvöldið, en það féll niður, þar sem skráning á skemmtunina reyndist ekki nægileg til að hún stæði undir sér.