Liðnir viðburðir

Dráttarvélardagur í Sævangi tókst vel

Sunnudaginn 10. ágúst fór fram á íþróttavellinum við Sævang æsispennandi keppni í dráttarvélaökuleikni. Keppnin var hluti af Dráttarvéladegi Sauðfjársetursins, en einnig var heyskaparlokum fagnað með veglegu töðugjaldakaffi inni í kaffistofunni í Sævangi. Blíðskaparveður gladdi gesti sem hefðu mátt vera fleiri, en þeir sem mættu gátu vart á heilum sér tekið af spenningi yfir akstrinum og hlaðborðinu. Þátttaka í ökuleikninni var sérlega góð og keppnin var lengst af æsispennandi. Keyrt var um á Ford-dráttarvél í eigu Páls Áskelssonar frá Hnitbjörgum með kindavagn í eftirdragi, en sjá má nokkrar myndir úr keppninni hér fyrir neðan.

Meðal þess sem keppendur þurftu að leysa af hendi var að kyssa fuglahræðu með vagninum eftir að hafa bakkað að henni, sparka bolta í mark með ámoksturstækjum vélarinnar, bakka í gegnum hlið og hella síðan úr vatnsglasi í lok brautarinnar með fyrrnefndum moksturstækjum.

Það var Ómar Pálsson frá Grund í Tungusveit sem fór með sigur af hólmi í karlaflokki, en þar voru þátttakendur tæplega fimmtán. Ómar var eini keppandinn sem fór villulaust í gegnum brautina og setti þar með nýtt met í lágu refsistigaskori; hlaut aðeins 141 refsistig fyrir tíma, en eitt refsistig er gefið fyrir hverja sekúndu sem tekur að keyra brautinu. Í öðru sæti varð Jón Stefánsson bóndi á Broddanesi og í því þriðja var bjarnfirski hagleiksbóndinn Ólafur Ingimundarson á Svanshóli. Í kvennaflokki voru keppendur hins vegar aðeins tveir; þær Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir og Ásdís Jónsdóttir, en Svanhildur Jónsdóttir, sem jafnan hefur staðið uppi sem sigurvegari í flokki kvenna, var í hlutverki brautarhönnuðar í ár. Sigríður fór með öruggan sigur af hólmi enda var ferð Ásdísar um brautina afar skrautleg og skemmtileg. Sigurvegararnir fengu í verðlaun inneignarnótu í kaffistofu og handverksbúð setursins að upphæð kr. 5000 auk ærbókar frá Þúfu.

Þeim Ásdísi Jónsdóttur frá Steinadal og Ingimundi Magnússyni í Litla-Fjarðarhorni var síðan veitt sérstök skammarverðlaun, en þeirra ferðir í keppnisbrautinni vöktu ómælda kátínu og skelfingu meðal áhorfenda. Hér fyrir ofan sést mynd af Ásdísi á ferð um brautina, skommu áður en hún gerði (ó)heiðarlega tilraun til að mölva borðið fremst á myndinni í spað.