Liðnir viðburðir

Landskeppni í spuna: Ull í fat á Sævangi

Á sama tíma og hrútaþuklið fór fram á Sauðfjársetrinu í Sævangi á sunnudaginn, var haldin þar landskeppni í spuna undir heitinu Ull í fat. Keppnin fór þannig fram að fjögur lömb voru rúin á staðnum og síðan var spunnið úr ullinni ókemdri. Fimm lið kepptu um að koma þessari ágætu ull í fat og að þessu sinni átti að gera lambhúshettu með frjálsu sniði. Liðin sem kepptu voru Norðanvindur úr Þingeyjasýslum, Alþýðulist úr Skagafirði, Ullarselið á Hvanneyri, Þingborg í Flóa og Tröllin af Ströndum.

Fjórir til sex þátttakendur voru í hverju liði, en sérfróð dómnefnd Sauðfjársetursins valdi svo sigurliðið og tók mið af ýmsum þáttum, svo sem flíkinni sjálfri, verklagi, vinnubrögðum og hraða, skipulagi og samvinnu innan hópsins og ýmsum öðrum þáttum svo sem samræmdu göngulagi, útliti nestisboxa og skemmtilegheitum liðanna.

Það var lið Ullarselsins á Hvanneyri sem stóð að lokum uppi sem sigurvegari og hafði hannað, spunnið og prjónað klæðilegustu lambhúshettuna að mati dómnefndar. Í liði Ullarselsins voru spuna- og prjónakonurnar Kristín Gunnarsdóttir, Rita Bach, Ástríður Sigurðardóttir og Ingibjörg Jónasdóttir. Einnig voru í liðinu Ásthildur Thorsteinsson faglegur liðstjóri og Guðmundur Hallgrímsson andlegur liðstjóri og leikfimistjóri. Ullarselshópurinn varðveitir því fram að næstu keppni glæsilegan farandgrip, sem gerður var af Miðhúsafeðgum og var gefinn af Landsamtökum sauðfjárbænda.