Liðnir viðburðir

Hrútadómar 2008 – Björn á Melum Íslandsmeistari

Afar fjölmennt var á Íslandsmeistaramóti í hrútadómum sem fram fór í frábæru veðri sunnudaginn 17. ágúst. Þátttaka í þuklinu sjálfu hefur aldrei verið betri, en þar um 50 manns dæmdu hrútana Koll, Berg, Gimstein og Hrein. Það var Björn Torfason á Melum í Árneshreppi sem sigraði í flokki vanra þuklara, en Björn vann einnig mótið árið 2003. Melafólk gerði sér annars lítið fyrir og sópaði til sín verðlaunum – Árný Björk Björnsdóttir vann í flokki óvanra og Guðmundur Björnsson varð í þriðja sæti, en þau kepptu meðal annars við Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í óvana flokknum. Hér fyrir neðan gefur að líta nokkrar myndir frá mótinu.

Úrslitin í keppninni voru sem hér segir:

Í flokki vanra hrútaþuklara:
1) Björn Torfason, Melum í Árneshreppi
2) Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum í Tungusveit
3) Hörður Guðmundsson, Böðmóðsstöðum í Laugardal

Í flokki óvanra hrútaþuklara:
1) Árný Björk Björnsdóttir, Melum í Árneshreppi
2) Ómar Ólafsson
3) Guðmundur R. Björnsson, frá Melum í Árneshreppi

27 einstaklingar kepptu í óvana flokknum en 22 tóku þátt í flokki hinna vönu. Verðlaun voru afar vegleg, en m.a. fengu sigurvegararnir í vana flokknum 5, 10 og 15 skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingarstöð Vesturlands. Margir aðrir vinningar voru einnig fyrir keppendur eins og vegleg bókagjöf frá Sparisjóði Strandamanna og Sauðfjársetrinu, vinnugallar frá Bændasamtökum Íslands og kjötlæri, úttektargjafabréf, húfur og höfuðföt og fleiri minjagripir frá Sauðfjársetrinu.

Björn Torfason hlaut einnig til varðveislu í eitt ár verðlaunagripinn Horft til himins sem er tileinkaður minningu Brynjólfs Sæmundssonar ráðunautar.