Liðnir viðburðir

Hrútadómar 2007 – Kristján á Melum sigraði aftur

Keppt var í hrútadómum og hrútaþukli á Sauðfjársetrinu í Sævangi á sunnudaginn og var mikið um dýrðir. Kristján Albertsson á Melum í Árneshreppi gerði sér lítið fyrir og sigraði í keppninni í flokki þeirra vönu, annað árið í röð. Varðveitir hann því annað ár verðlaunagripinn Horft til himins sem Búnaðarsamband Strandamanna gaf til minningar um Brynjólf Sæmundsson ráðunaut. Mikið fjör var við Sævang á meðan á keppninni stóð og veðrið lék við mannskapinn eftir eina góða skúr í upphafi þukls.

Samhliða þuklinu fór fram landskeppni í spunalistinni við Sævang þar sem fimm lið þreyttu keppni í að búa til nýtísku lambhúshettu – Ull í fat. Um kvöldið var svo haldin Bændahátíð og Þuklaraball á Hólmavík í fyrsta skipti og Gísli Einarsson stjórnaði þar veisluhöldum.

Nærri 40 manns kepptu í þuklinu, en talið er að yfir 300 manns hafi komið í Sævang í tilefni dagsins.

Úrslitin í keppninni voru sem hér segir:

Í flokki óvanra hrútaþuklara:

1) Sverrir Þór Þórarinsson, 10 ára frá Stórhóli í Skagafirði
2) Alda Ýr Ingadóttir, 12 ára frá Kaldrananesi í Bjarnarfirði
3) Bjarnheiður Fossdal, Melum í Árneshreppi

Í flokki vanra hrútaþuklara:

1) Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2) Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum í Tungusveit
3) Ólafur Bragi Halldórsson, bóndi á Magnússkógum III, Dölum

Hrútarnir sem menn áttu að raða í rétta röð heita Leiftur, Neisti, Hnoðri og Robin og voru allir frá Heydalsá. Ragnar Bragason bóndi á Heydalsá á þrjá þeirra en Stefán Snær Ragnarsson á Robin. Það voru 20 sem kepptu í óvana flokknum en 17 tóku þátt í flokki hinna vönu. Dómnefndin var leidd af Jóni Viðari Jónmundssyni.

Verðlaun voru afar vegleg, en m.a. fengu sigurvegararnir í vana flokknum 5, 10 og 15 skammta af hrútasæði, en margir aðrir vinningar voru einnig fyrir keppendur eins og ullarteppi frá Ístex, úrvalsrækju frá Hólmadrangi, vinnugalla frá Bændasamtökunum, boli frá Sauðfjársetrinu, hrútaspil, kaffihlaðborð o.fl.

Þess ber að geta að Hrútadómarnir vöktu mikla athygli í innlendum fjölmiðlum og m.a. var sýnt alllangt innslag frá Gísla Einarssyni í Kastljósþætti sjónvarpsins þar sem sýndar voru myndir frá þukli og spunakeppni, auk þess sem rætt var við Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóra og Kristján Albertsson sigurvegara þuklsins.