Liðnir viðburðir

Ljóðastund í Sævangi: Klettur – ljóð úr sprungum

Fimmtudagskvöldið 25. nóvember kl. 20, var haldið ljóðakvöld á Sauðfjársetrinu í Sævangi. Ólafur Sveinn Jóhannsson frá Tálknafirði, Strandamönnum að góðu kunnur, mætti þá á staðinn og kynnti ljóðabókina sína: Klettur – ljóð úr sprungum. Hann var að sjálfsögðu með bækur í farteskinu fyrir áhugasama kaupendur. Sauðfjársetrið bauð gestum upp á heitt súkkulaði og piparkökur í tilefni dagsins og eftir að Ólafur Sveinn hafði lesið upp fengu gestir líka að hlusta á upplestur Eiríks Valdimarsson úr Aðventu, en hann las söguna í beinni öll kvöldin á hátíðinni Bókavík – sem var haldin á Hólmavík og Ströndum um þetta leyti.

Ólafur Sveinn Jóhannesson missti ungur að árum foreldra sína og sem elsta barn þeirra tók hann að sér uppeldi yngri systkina. Í nýútkominni bók sinni – KLETTUR, ljóð úr sprungum – yrkir hann um sína einstöku lífreynslu af einlægni og íhugun sem er áhrifamikil og lifir lengi með lesandanum.

Síðustu átta ár hefur Ólafur Sveinn starfað sem deildarstjóri markaðs- og kynningarmála hjá Tækniskólanum, þar sem hann hefur m.a. leitt kynningarstarf á iðn- og tækninámi, en hluti af því er þverfagleg vinna með Samtökum iðnaðarins og fleiri iðn- og verkmenntaskólum í tengslum við ímyndarsköpun og fleira. Ólafur Sveinn er með sveinsbréf í tveimur iðngreinum, annars vegar rafeindavirkjun og hins vegar rafvirkjun en hann er einnig iðnmeistari í þeirri grein. Nú stundar hann hins vegar nám við Háskólann á Bifröst í miðlun og almannatengslum.

Ólafur Sveinn er kvæntur Nönnu Kristjönu Traustadóttur, framkvæmdastjóra Keilis og saman búa þau í Kögurseli í Breiðholti ásamt 4 börnum. Bæði eru þau fædd og upp alin upp á Vestfjörðum, Nanna í Hnífsdal og Ólafur á Tálknafirði.

Viðburðurinn var haldinn í tengslum við Bókavík og var staðviðburður sem miðast við þær sóttvarnareglur sem voru þá í gildi.