Fréttir

Ný bók: Álagablettir á Ströndum

Út er komin bókin Álagablettir á Ströndum, eftir feðginin Dagrúnu Ósk Jónsdóttur og Jón Jónsson, þjóðfræðinga á Kirkjubóli á Ströndum. Það eru Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa sem gefa bókina út í samvinnu og Sauðfjársetrið sér um dreifingu. Bókin er full af áhugaverðum og krassandi sögum um álög og bannhelgi sem tengist einstökum stöðum á Ströndum. Í henni er einnig fjöldi litljósmynda og margvíslegur fróðleikur um þjóðtrú og sagnir.

Síðustu ár hefur verið uppi sýning um álagabletti í Sauðfjársetrinu, en nú er fyrirhugað að hún verði tekin niður og leyst af hólmi með annarri skemmtilegri sýningu á 20 ára afmæli Sauðfjársetursins á næsta ári. Útgáfa bókarinnar er hluti af álagablettarannsókninni, þannig að eigulegur prentgripur stendur eftir þegar búið er taka sýninguna niður. Hægt er að kaupa bókina hjá Sauðfjársetrinu, Ester s. 693-3474 og saudfjarsetur@saudfjarsetur.is.