Sögurölt á Skarði á Skarðsströnd
Byggðasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum halda áfram samstarfi sínu um sögurölt sumarið 2020. Fyrsta rölt sumarsins var miðvikudaginn 1. júlí kl. 19:30 og hófst á hlaðinu á Skarði. Stella kollubóndi á Skarði og Valdís safnvörður fóru fyrir hópnum um nágrennið og sögðu sögur af alls konar konum á Skarði. Húsfreyjum, húskonum, vinnukonum, stúlkum, reifabörnum og draugum. Karlmenn komu aðeins við sögu í einstaka tilfellum. Í boði var örstutt rölt á hlaðinu, stutt rölt með smá hækkun og örlítið lengra rölt þar sem fara þurfti yfir eitt vatnsfall.