Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Afurðir af öllu tagi

Afurðir af kindinni eru mikið nýttar enn í dag, sér í lagi kjötafurðir og ull. Hins vegar er nýtingin ekki svipur hjá sjón þegar horft er til fyrri tíma, því í gamla bændasamfélaginu þurfti að nýta allt sem mögulegt var að nýta – og það var gert. Í raun er óhætt að segja að allt hafi verið nýtt af kindinni nema klaufirnar og jarmið.

Horn, bein og húðir

Horn

Hornin voru til margra hluta nytsamleg. Úr þeim voru búnar til hagldir sem voru ómissandi þegar þurfti að binda hey og annan varning á klyfjahesta. Einnig smíðuðu menn spæni eða skeiðar úr hornum, tóbakspontur, hnappa í fatnað, beisliskjálka, ístöð, hólka á verkfærasköft, fleyga í orf og hnífssköft og margt fleira. Hornin voru ómissandi hluti af búskap unga fólksins, en þar gegndu þau hlutverki kindarinnar. Brennd hrútshorn voru notuð til að fæla burt drauga og illa vætti.

Bein

Beinin voru vinsæl leikföng. Kjálkarnir voru virðulegar kýr, leggirnir tignarlegir reiðhestar og kjúkurnar voru hundar. Leggurinn var einnig notaður til að vinda upp á þráð og hét þá þráðaleggur. Leggjatöng sem notuð var við skinnklæðasaum var búin til úr tveimur leggjum.

Aska af brenndum beinum var notað til lækninga á skurðum og smásárum. Stundum voru beinin látin liggja í sýru þar til þau voru orðin meyr, en þá voru þau tekin upp og soðin í mauk sem var borðað og hét beinastrjúgur. Enn fremur voru beinin eins og hornin notuð til að búa til verkfæri og bæta húsmuni.

Ýmsar afurðir af hrútum þóttu líka góðar til lækninga. Menn drukku hrútahland blandað með hunangi til að lækna vatnssótt, hrútafeiti var góð við brunasárum og hrútakjöt var brennt til ösku og hún borin á útbrot í andliti. Þegar fjárdauði gerði vart við sig var hrútsvinstur soðin með víni og gefið fénu.

Húðirnar

Húðir voru þurrkaðar og skinnið notað í fatnað. Peysur, buxur, sjóklæði og skófatnaður eru nokkur dæmi um nýtingu skinnsins. Einnig voru bókfell gerð úr skinni og þurrkaðir skinnbelgir voru notaðir undir ýmsan mat. Ekki má gleyma hrútspungunum sem voru notaðir undir neftóbak eða smáaura.

Allt nýtt nema jarmið

Það er í raun hægt að segja að allt hafi verið nýtt af kindinni fyrr á öldum nema klaufirnar, gorið og jarmið. Hér verða tekin örfá dæmi um það hvernig afurðir innan úr kindinni voru nýttar.

Garnirnar

Garnirnar voru notaðar til að spá í veður og fyrir fólki. Þessi spádómslist er stunduð enn í dag, þótt fáir kunni kúnstirnar. Garnir voru líka þurrkaðar og notaðar í fiðlu- og hörpu­strengi og líka sem rokksnúrur og umbúðir utan um bjúgu.

Lungun

Margir trúðu að lungu, steikt eða soðin, og síðan étin á tóman maga væru óbrigðult ráð móti áfengissýki. Víða voru lungun hökkuð og troðið ásamt mör í langa, þetta var síðan reykt og kallað grjúpán. Hætt var að borða lungu vegna mæðiveikinnar.  

Hlandblaðran

Blaðra úr hrútum var notuð til að spá fyrir veðri og úr henni voru líka búnar til smáskjóður. Stundum var hún þurrkuð og gerð að leikfangi.

Miltað

Miltað var helst nýtt til veðurspár og þótti ekki síðra en garnirnar við þá iðju, þó svo að enn færri kynnu listina.

Lifrin

Lifrin þótti vera herramannsmatur og mörgum finnst svo enn í dag. Lifrarpylsa var búin til með því að troða hakkaðri lifur í vinstrina og sjóða.

Hjartað

Hjartað var étið og það er gert enn í dag. Mörgum finnst vera hjartað besta kindakjötið.

Nýrun

Nýrun voru borðuð ný og mörgum þóttu þau hið mesta hnossgæti.

Heilinn

Heilinn var notaður til matar og gerð úr honum heilastappa. Þetta hefur lagst af vegna sjúkdómahættu.

Langinn

Langinn var fylltur af vel þrifnum ristilgörnum og mör, þetta var sett í reyk og kallað sperðlar. Seinna voru langarnir notaðir til að reykja í þeim hakkað kjöt.

Mörinn

Mör var og er mikið notaður í hvers kyns matargerð, s.s. í slátur- og bjúgnagerð. Einnig voru tólgarkerti búin til úr bræddum mör. 

Vömbin

Vömbin var jafnan saumuð utan um slátur, og margir gera það enn í dag. Margir eru hrifnir af því að éta vömbina með slátrinu, enda er hún ágæt á bragðið.

Blóðið

Blóðið var og er nýtt til matar, m.a. í blóðmör sem er að miklu leyti búinn til úr blóði og blóðgraut sem samanstendur af blóði, hveiti og vatni.

Pungar og júgur

Hrútspungar og kindajúgur voru sett í súr og borðuð. Í dag eru hrútspungar á boðstólum á hverju þorrablóti og þykja sælgæti, en aðeins einstaka sérvitringar á Ströndum borða júgur.

Endagörn og ristill

Endagörnin var nýtt þannig að hún var rist upp og skafin og síðan saumuð inn í þind ásamt lundunum sem eru neðan á hryggnum. Þessi baggi var soðinn og settur í súr. Ristillinn var líka notaður í þessa bagga sem heita lundabaggar. Þeir eru gerðir og borðaðir enn þann dag í dag og þykja herramannsmatur.

Ruslabaggi

Stundum voru garnir, milta, bris og ýmsir afgangar sett innan í þind og hún saumuð saman. Síðan var bagginn soðinn. Þetta var kallað ruslabaggi og var yfirleitt ætlaður hundum, en fólk brá stundum á það ráð að borða ruslabaggann ef sultur svarf að.

Lambakjöt á diskinn minn …

Í þúsund ár notuðu menn einkum fjórar aðferðir við að geyma kjöt, það var saltað þegar salt var til, reykt, súrsað eða þurrkað. Þá gátu menn ekki treyst á frystikistur og lofttæmdar umbúðir.

Notkun á frystikistum, rotvarnarefnum og lofttæmdum plastumbúðum hefur ekki alveg útrýmt gömlu geymsluað-ferðunum. T.d. er reykt hangikjöt alltaf jafn vinsælt og súrmatur, t.d. hrútspungar, svið, lappir og bringukollar eru vinsæll þorramatur.

Þá er saltkjöt alltaf borðað á sprengidaginn og auðvitað marga aðra daga ársins líka. Þurrkun á kjöti hefur nánast alveg dottið upp fyrir, enda var sú geymsluaðferð oftast neyðarráðstöfun hér á landi. Færeyingar kunnu þessa kúnst hins vegar til fullnustu. Lamba- og kindakjötið ásamt öðrum afurðum af sauðkindinni var lífsbjörg fyrir þjóðina í margar aldir.

Leiðirnar til að búa til góðan mat úr lambakjöti eru óteljandi. Steikt, soðið, grillað, reykt eða saltað – kótilettur, súpukjöt, læri, bógur eða hryggur. Það eru forréttindi að eiga slíka auðlind.

Sauðavala, leggur og skel

Afurðir sauðkindarinnar eru einnig nýtilegar til ýmissa barnaleikja. Ef maður á sauðavölu er hægt að láta hana spá. Þá setur maður völuna í lófann, svo kryppan snúi upp, ber hana að vanganum og veltir með lófanum meðan maður segir:

Spávala mín, ég spyr þig að,
ég skal þig með gullinu gleðja
og silfrinu seðja
ef þú segir mér satt.
En í eldinum brenna
ef þú skrökvar að mér.

Svo spyr maður spurningar sem hægt er að svara með já eða nei. Síðan lætur maður völuna detta á slétt borð, já eða kannski bara á gólfið.

Ef kryppan á völunni snýr upp þegar hún lendir er svarið við spurningunni já, en ef hvilftin er upp segir hún nei. Ef hún liggur á hliðinni vill hún ekki spá eða veit ekki svarið.

Leggir og skel

Eitt það helsta sem börn léku sér að í gamla daga voru skeljar sem fundust í fjörunni og ýmisleg bein eins og sauðaleggir, völur og kjálkar.

Leggirnir og kjálkarnir voru yfirleitt hafðir fyrir hesta og kindavölurnar fé en kýr­völur fyrir kýr. Hornin voru líka vinsæl leikföng. Þau voru oft höfð fyrir sauðfé.

Börnin áttu oftast bú einhvers staðar úti við, þar sem þau léku sér í alls konar búskaparleikjum.

Kaflarnir í fróðleikskistunni: